Skip to main content

Vopnafjörður fær mestan byggðakvóta

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2014 13:02Uppfært 13. okt 2014 13:07

vopnafjordurVopnafjörður er það byggðarlag á Austfjörðum sem fær mestan byggðarkvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/15. Sjö byggðarlög á svæðinu fá kvóta.


Vopnfirðingar fá 300 tonna þorskígildiskvóta sem er hámarksúthlutun. Fimm önnur byggðarlög á landinu fá sama skammt.

Alls koma ríflega 1000 tonn af yfir 6100 í hlut Austfirðinga. Djúpavogsbúar fá 194 tonn, Stöðfirðingar 184, Seyðfirðinga 141, Borgfirðingar 101, Breiðdælingar 90 og Mjófirðingar 15.

Formlega er það sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem tekur ákvörðun um úthlutun kvótans en hún byggir á upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2004/2005 til fiskveiðiársins 2013/2014.

Alls er byggðakvóta úthlutað til 31 sveitarfélags og í þeim fengu 48 byggðarlög úthlutun.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá átta byggðarlög þá úthlutun.