Sýknaður af ákæru um fjársvik: Hafði ekki efni á að borga þegar á reyndi

heradsdomur austurlands hamar 0010 webHéraðsdómur Austurlands hefur sýknað karlmann á þrítugsaldri af ákæru um fjársvik með því að hafa aldrei ætlað sér að borga fyrir gistingu sem hann keypti. Dómurinn taldi manninn hafa sýnt vilja til að greiða fyrir gistinguna en ekki reynst borgunarmaður fyrir henni þegar á reyndi.

Maðurinn fékk vinnu á Austfjörðum í janúar í fyrra en vantaði gistingu. Hann fékk inni á íbúðahóteli eftir að hafa borið sig „aumlega" og móðir hans talað máli hans.

Uppbókað var á hótelinu en eigendur þess útveguðu manninum herbergi með tilfæringum og varð úr að hann gisti þar í ellefu nætur.

Hann hélt heim til sín á höfuðborgarsvæðið í lok mánaðarins og var sagt upp vinnu síðasta dag mánaðarins. Hann greiddi síðan ekki fyrir gistinguna, alls 56.500 krónur og var gefið að sök að hafa blekkt starfsfólk hótelsins til að veita sér gistingu án þess að hann hefði neina möguleika á að borga.

Maðurinn viðurkenndi að hafa ekki átt neitt handbært fé þegar hann falaðist eftir gistingunni og verið talsvert skuldugur. Samið hafi verið um að hann greiddi fyrir gistinguna í lok mánaðarins og ekki hafi staðið annað til en borga í lok mánaðarins.

Þá hafi staðan hins vegar verið sú að hann hafi staðið uppi atvinnu- og húsnæðislaus og þrátt fyrir útborgunina varla átt pening til að fleyta sér út mánuðinn. Hann hafi síðan að mestu verið atvinnulaus, þegið bætur frá félagsþjónustu og varla verið borgunarmaður fyrir skuldinni.

Hann hafnaði því að hafa vísvitandi blekk starfsfólk íbúðahótelsins þar sem hann hefði staðið í þeirri trú að hann gæti greitt fyrir gistinguna þar til honum var sagt upp.

Dómari mat framburð hans stöðugan, trúverðugan og að mestu í samræmi við framburð rekstraraðila, sem meðal annars staðfestu að hann hefði átt að greiða eftir mánaðarmótin.

Í niðurstöðu dómsins segir að ákæruvaldið hafi ekki risið undir þeirri sönnunarbyrði sem á því hvílir og er mat hans að ekki hafi verið sýnt fram á ásetning að baki fjárvikum.

Maðurinn var því sýknaður og málsvarnarlaun og ferðakostnaður skipaðs verjanda, tæp hálf milljón króna, felld á ríkissjóð.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.