Andlát: Inga Rósa Þórðardóttir

inga rosa thordardottirInga Rósa Þórðardóttir, fyrrum deildarstjóri Svæðisútvarps Austurlands, lést á Landspítalanum í Reykjavík á fimmtudag.

Inga Rósa fæddist að Garðastræti í Reykjavík 2. desember 1954. Hún var einkabarn þeirra Þórðar Guðmundssonar frá Efri-Gerðum í Garði og Ingibjargar Guðjónsdóttur frá Hvammi í Vatnsdal. Inga Rósa giftist Guðmundi Steingrímssyni og áttu þau þrjú börn: Berglindi Rós, Sunnu Björk og Þórð Inga.

Uppvaxtarár sín bjó Inga Rósa með foreldrum sínum að Efri-Gerðum í Garði. Hún flutti snemma til Reykjavíkur til að stunda þar nám og útskrifaðist með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands vorið 1974. Það sumar flutti hún svo með verðandi eiginmanni sínum og elstu dóttur þeirra til Egilsstaða þar sem fjölskyldan bjó næstu 25 árin.

Hún lauk réttindanámi til kennaraprófs í fjarnámi árið 1981 og starfaði sem grunnskólakennari á Egilsstöðum til ársins 1983. Þá tók hún til starfa hjá Ferðamiðstöð Austurlands en sneri sér svo að útvarpsstörfum árið 1985 og var deildarstjóri Svæðisútvarps Austurlands frá stofnun þess 1986 til ársins 1999.

Það ár flutti hún til Reykjavíkur til að taka við stöðu framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands. 2002 sneri hún sér svo aftur að grunnskólakennslu og kenndi við unglingadeild Foldaskóla í Grafarvogi til æviloka.

Inga Rósa var virk í ýmsum félagsstörfum. Hún var m.a. formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs, tók þátt í bæjarstjórnarmálum, og sat lengi í stjórn og á formannsstóli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs en hún hafði mikinn áhuga og yndi af útivist og náttúru.

Hún annaðist skálavörslu í Snæfellsskála hluta úr sumri um árabil, hafði ásamt öðrum forgöngu um byggingu skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Víknaslóðum og þar sinnti hún skálavörslu hluta úr sumri flest hin síðustu ár. Einnig starfaði hún við leiðsögn um landið flest síðustu sumur og menntaði sig til þeirra starfa.

Síðustu ár sat hún einnig í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur og síðastliðið vor settist hún í stjórn Félags grunnskólakennara.

Inga Rósa var höfundur þriggja kafla í bókunum Lífsreynsla, ásamt því að hafa skrifað fjölmargar greinar í blöð og aðra miðla. Hún var höfundur bókarinnar Það reddast, ævisögu Sveins Sigurbjarnarsonar sem út kom árið 2010 og loks var hún meðhöfundur bókarinnar Málvísir – Handbók í málfræði fyrir unglingastig, sem út kom nú á haustdögum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.