Hvasst á Seyðisfirði: Hurð af Þórshamri fauk út á sjó
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. okt 2014 11:13 • Uppfært 21. okt 2014 13:04
Björgunarsveitarmenn úr Ísólfi á Seyðisfirði komu til hjálpar á ellefta tímanum í morgun þegar hurð á suðurgafli hússins Þórshamars fauk upp. Bálhvasst hefur verið á Seyðisfirði í nótt og í morgun.
Svo heppilega vildi til að aðsetur björgunarsveitarinnar er í næsta húsi og þar voru félagar úr Ísólfi staddir. Þeir hentust því út og byrgðu fyrir opið.
Ekki urðu frekari skemmdir á húsinu en hurðin fauk á haf út. Vindstreng liggur niður eftir firðinum og er bálhvasst á svæðinu.
Þórshamar er eitt svokallaðra Bryggjuhúsa í Hafnargötu. Það var byggt árið 1882 af dönsku síldveiðifélagi en komst í eigu Ottó Wathne þegar veiðifélagið hætti störfum.
Á Borgarfirði fór björgunarsveitin á bát út á fjörðinn að sækja lok er fokið hafði af heitum potti. Vont var í sjóinn og var snúið við áður en lokið fannst.
Björgunarsveitarmenn að störfum við Þórshamar í morgun. Mynd: Ómar Bogason