Skógarmítill fannst á stofugólfi á Egilsstöðum: Þetta er ekki að hellast yfir okkur

skogarmitill 0018 webLifandi skógarmítill fannst nýverið í íbúðarhúsnæði á Egilsstöðum. Sérfræðingur segir ekki nýtt að þeir finnist á Austfjörðum þótt ekki sé víst að þeir séu landlægir hér.

„Þetta er ógeðslegt kvikindi, pínulítil kúla og um sentímetri á stærð. Hún lá á stofugólfinu," segir Reynir Hrafn Stefánsson sem fékk mítilinn inn til sín.

Líklegast er að mítillinn hafi borist inn í húsið með heimiliskettinum. Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir það vel þekkt og bendir á að hans eigin köttur hafi „fært honum tvo."

Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum skógarbotnum, að því er fram kemur á pödduvef Náttúrustofu Íslands. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa sem á leið um.

Skógarmítlarnir hafa komið til landsins með fuglum en sá fyrsti fannst á þúfutittlingi í Surtsey árið 1967. Fyrsti skógarmítillinn á Austfjörðum fannst á sauðkind sem gengið hafði í Mjóafirði. Dýralæknar á Austfjörðum eru því ekki ókunnugir verunni. „Þetta er ekki að hellast yfir okkur," segir Skarphe´ðinn.

Tvívegis er vitað um að skógarmítill hafi fest sig á mannfólk á svæðinu, fyrra atvikið varð í Selskógi við Egilsstaði árið 1996 en hitt er skráð á Norðfirði árið 2009. Flest tilvikin eru á köttum og hundum en árið 2009 fannst skógarmítill á hreindýri.

Þegar mítlarnir hafa sogið nægt blóð falla þeir af bráð sinni, saddir og sælir, líkt og sá á Egilsstöðum hefur að líkindum gert. Ekki er hætta á að þeir finni sér annað fórnarlamb á meðan þeir melta.

Þekkt er að mítlarnir geta borið með sér vírusa og óværu sem valda sýkingum. „Þeir hafa aldrei borið sjúkdóma í Íslending á Íslandi," minnir Skarphéðinn á en misjafnt virðist eftir landssvæðum hvers konar sýkingar þeir bera með sér.

Á vef Landlæknisembættisins er farið yfir hugsanlega hættu og hvernig eigi að fjarlægja mítlana. Ekki má slíta þá af því hætta er að hluti þeirra verði eftir sem skapar hættu á sýkingu. Almennt er ekki talin hætta á sýkingu náist mítillinn af innan sólarhrings. Einkenni sýkingarinnar er tvöfaldur rauður hringur umhverfis svæðið.

Eftir því sem loftslag jarðarinnar hlýnar færist skógarmítillinn norðar á bóginn og ofar í landið. Tilfellum hérlendis hefur því fjölgað töluvert síðustu ár. Skarphéðinn segir frekari rannsóknir þurfa til að sannreyna hvort skógarmítillinn lifi af veturinn á Austfjörðum og sé landlægur á svæðinu eða berist hingað með farfuglum.

Mítlinum á Egilsstöðum var komið til Náttúrustofunnar sem svæfði hann og sendi hann suður til Reykjavíkur til frekari greiningar. Mítillinn er áttfætla og skyldur köngulóm, líkt og lundalúsin.

Skógarmítlar hafa fundist á Íslandi á tímabilinu frá júní og fram í nóvember. Ólíklegt er því að fleiri finnist á þessu ári en þeir sem verða varir við skógarmítlar er bent á að snúa sér til Náttúrustofunnar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.