Verkfall lækna hjá HSA: Öryggi tryggt en þjónusta skerðist
Læknar verða á vakt um allt Austurland og sinna bráðaþjónustu þótt verkfall þeirra hafi hafist á miðnætti. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir verkfallið ekki ógna öryggi en skerða þjónustu.„Við fylgjum öryggismönnun, sem er skilgreind, þannig að alls staðar verða læknar á vakt og öll neyðarþjónusta tryggð," segir Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri HSA.
Verkfallið nær ekki til verktakalæknar en tveir slíkir starfa hjá HSA, á Seyðisfirði og Djúpavogi. Þjónusta þar á því ekki að breytast.
Á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað eru sjúkrahúslæknarnir þrír áfram á vakt og sinna allri bráðaþjónustu en röskun verður á göngudeildarþjónustu.
Á Egilsstöðum verður einn læknir á vakt og annar á bakvakt og eins verða læknar á vakt á Vopnafirði og í Fjarðabyggð sunnan Oddsskarðs.
Það sem viðkemur venjulegri dagvakt fellur á móti niður. „Þetta kemur mest niður á dagvinnu. Ef menn eiga bókaða tíma þá geta þeir fallið niður eða ekki hægt á að panta tíma," segir Kristín.
Samningafundur deiluaðila hefur verið boðaður klukkan fjögur í dag. Í fyrstu lotu á verkfallið að standa í tvo sólarhringa.