Skip to main content

Lögreglan á Austfjörðum á skammbyssur og kindabyssur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2014 16:13Uppfært 30. okt 2014 16:16

logreglanAustfirsku lögregluumdæmin tvö hafa yfir að ráða kindabyssum og skammbyssum. Í Seyðisfjarðarumdæmi eru skotvopnin geymd á lögreglustöðvum en hirslur fyrir skotvopn eru í bílum í Eskifjarðarumdæmi.


Í Seyðisfjarðarumdæmi eru til fimm Glock skammbyssur og þrjár kindabyssur. Vopnin eru geymd í læstum hirslum á lögreglustöðvunum á Egilsstöðum og Vopnafirði, að því er fram kemur í svari Óskars Bjartmarz, yfirlögregluþjóns, við fyrirspurn Austurfréttar.

Lögreglan á Eskifirði á „nokkur skotvopn af gerðinni Glock," segir í svari Inger L. Jónsdóttur, lögreglustjóra. Aðspurð um hvar þær séu geymdar segir hún staðsetningu þeirra „ á hverju tíma öryggismál."

Í fréttum RÚV í síðustu viku kom fram að skotvopnageymslur væru í lögreglubílum á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Höfn og í Neskaupstað.

Austurfrétt óskaði einnig eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um notkun byssanna, það er hver hefði heimild til að beita þeim og í hvaða tilfellum.

Bæði Inger og Óskar sögðu þær byggja á reglum ríkislögreglustjóra um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Þær eru trúnaðarmál, samkvæmt fyrirmælum fagráðuneytis lögreglumála.