Upplýsingamiðstöð Austurlands lokað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. nóv 2014 14:55 • Uppfært 04. nóv 2014 14:56
Upplýsingamiðstöð Austurlands á Egilsstöðum hefur verið lokað vegna rekstrarerfiðleika og óvíst er í hvaða mynd hún opnar að nýju. Þar með skerðist upplýsingagjöf til ferðamanna verulega.
Miðstöðin er landshlutamiðstöð sem hefur verið rekin af Austurbrú. Hennar helsta verkefni er að veita ferðamönnum þjónustu og þannig auka öryggi þeirra.
Í tilkynningu Austurbrúar frá í dag segir að almannavarnahlutverk upplýsingamiðstöðvanna sé „gríðarlega mikilvægt í ljósi aukningar á ferðamönnum síðustu ár, fjölgun ferðamanna á eigin vegum og fjölgun þeirra að vetri, jarðhræringa norðan Vatnajökuls og veðráttu."
Upplýsingamiðstöðin hefur verið opin allt árið undanfarin ár en fjármagn vantar til að halda úti heilsársstarfsemi.
Í yfirlýsingunni segir að reksturinn hafi verið mjög erfiður síðustu ár. Fjármagn Ferðamálastofu Íslands hafi minnkað ár frá ári auk þess sem sveitarfélagið Fljótsdalshérað ákvað nýverið að endurskoða þátt sinn í rekstrinum.
Austurbrú leiti því nú „allra leiða" til að finna rekstri landshlutamiðstöðvarinnar farveg. Hún sé lokuð frá og með 1. nóvember og óljóst hvenær og í hvaða mynd hún opnar að nýju.
Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í haust var samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld að auka fjármagn til upplýsingamiðstöðva á Austurlandi til að hægt væri að þjónusta ferðamenn og auka öryggi þeirra allt árið.