Skip to main content

Nettengdum mælum fjölgað og byrjað að mæla brennisteinssýru

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. nóv 2014 14:19Uppfært 05. nóv 2014 14:19

blaa modan 05092014 0010 webTil stendur að fjölga nettengdum mælum vegna mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni. Þá verði hafin vöktun á styrk brennisteinssýru. Há gildi hafa mælst á Austfjörðum í morgun og gærkvöldi.


Samkvæmt tilkynningu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér í gær er gert ráð fyrir að fjölga nettengdum mælitækjum um land allt sem og handmælitækjum.

Á Austurlandi eru í dag nettengdir mælar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Vopnafirði. Handmælitæki eru á Jökuldal, í Fljótsdal, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Seyðisfirði.

Að auki hefur verið lagt til að hetja mælingar á styrk brennisteinssýru og að Landlæknisembættið hefji eftirlit á áhrifum gasmengunar á heilsu almennings.

Í leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun segir að ekki sé mælt með að börn sofi úti fari mengunin yfir 300 míkrógrömm á rúmmetra, eða þegar loftgæði teljast orðið slæm.

Á Vopnafirði mældist magn brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti yfir 2000 míkrógrömm í rúmmetra á milli klukkan 20:00 í gærkvöldi og 02:00 í nótt en þær aðstæður teljast óhollar.

Á nettengdum mæli í Reyðarfirði mældist styrkurinn yfir 600 míkrógrömm frá klukkan átta í morgun og fram yfir hádegi, en þau teljast slæm fyrir viðkvæma.

Óholl gildi mældust á handtæki á Jökuldal í gærkvöldi og slæm fyrir viðkvæma á Fáskrúðsfirði og Neskaupstað í morgun. Á fyrrnefnda staðnum er skráð athugasemd vegfaranda um að hann hafi fundið remmuna í hálsinum þegar hann hafi hjólað í vinnuna í morgun.