Nettengdum mælum fjölgað og byrjað að mæla brennisteinssýru
Til stendur að fjölga nettengdum mælum vegna mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni. Þá verði hafin vöktun á styrk brennisteinssýru. Há gildi hafa mælst á Austfjörðum í morgun og gærkvöldi.Samkvæmt tilkynningu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér í gær er gert ráð fyrir að fjölga nettengdum mælitækjum um land allt sem og handmælitækjum.
Á Austurlandi eru í dag nettengdir mælar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Vopnafirði. Handmælitæki eru á Jökuldal, í Fljótsdal, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Seyðisfirði.
Að auki hefur verið lagt til að hetja mælingar á styrk brennisteinssýru og að Landlæknisembættið hefji eftirlit á áhrifum gasmengunar á heilsu almennings.
Í leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun segir að ekki sé mælt með að börn sofi úti fari mengunin yfir 300 míkrógrömm á rúmmetra, eða þegar loftgæði teljast orðið slæm.
Á Vopnafirði mældist magn brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti yfir 2000 míkrógrömm í rúmmetra á milli klukkan 20:00 í gærkvöldi og 02:00 í nótt en þær aðstæður teljast óhollar.
Á nettengdum mæli í Reyðarfirði mældist styrkurinn yfir 600 míkrógrömm frá klukkan átta í morgun og fram yfir hádegi, en þau teljast slæm fyrir viðkvæma.
Óholl gildi mældust á handtæki á Jökuldal í gærkvöldi og slæm fyrir viðkvæma á Fáskrúðsfirði og Neskaupstað í morgun. Á fyrrnefnda staðnum er skráð athugasemd vegfaranda um að hann hafi fundið remmuna í hálsinum þegar hann hafi hjólað í vinnuna í morgun.