Garnaveiki greind í Hróarstungu

lombGarnaveiki hefur greinst í fé frá bænum Blöndubakka í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði. Sjúkdómurinn er ólæknandi en hægt að koma í veg fyrir hann með bólusetningu. Fundað verður með bændum í sveitinni í kvöld.

„Fyrst er að afmarka svæði til bólusetningar," segir Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir á Austurlandi.

Hún fundar í kvöld með bændunum þar sem tekin verður frekari ákvörðun um á hversu stóru svæði verður bólusett en hennar tillaga er að það verði að þjóðvegi nr. 1, það er í allri Hróarstungu.

„Ef rannsóknir okkar eða tilkynningar bænda gefa til kynna að bakterían sé komin innar verður það endurmetið. Tilgangur fundarins er að ræða þessi mál almennt við bændur."

Grunur vaknaði um smitið í sláturhúsi í síðustu viku en það var staðfest á mánudag. Fimm sýni af níu sem send voru til greiningar reyndust jákvæð.

Í kjölfarið var haft samband við alla bændur í Hróarstungu og síðar bændur í Héraðshólfi sem nær yfir nyrðri hluta Fljótsdal, austurhluta Jökuldals, Fellahrepp og Hróarstungu.

Garnaveiki hefur ekki greinst í hólfinu síðan fyrir fjárskipti í kringum árið 1990. Sjúkdómurinn er ólæknandi og orsakast af lífseigri bakteríu af berklaflokki. Ekki er þó ráðist í niðurskurð við henni en framgangur hennar er hindraður með bólusetningu.

Smit getur leynst árum saman í hjörðinni en nánari sýni verða tekin úr sauðfé á svæðinu til að kortleggja útbreiðslu veikinnar á næstunni.

„Við munum taka sýni ef bændur eru með grunsamlega gripi. Þá verða einhver blóðsýni tekin á mörkum þess svæðis þar sem við miðum bólusetninguna við."

Helstu einkenni garnaveikinnar eru hægfara vanþrif ásamt skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitbera". Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár eða lengri.

Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.

Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu. Þar á meðal er að óheimilt er að láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi í 10 ár frá síðustu greiningu á garnaveiki eða vanrækslu á bólusetningu.

Þá er óheimilt að húsa eða flytja búfjáráburð, hey, annað fóður, túnþökur eða gróðurmold frá landi sem húsdýraáburður hefur verið borinn á eða jórturdýr gengið á. Tæki notuð við dreifingu húsdýraáburði skulu sótthreinsuð fyrir flutning á aðra bæi og jarð- og heyvinnutæki á að þrífa.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.