Skip to main content

Fortitude á stóran þátt í metveltu íslenskrar kvikmyndagerðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. nóv 2014 13:54Uppfært 25. nóv 2014 13:55

rfj fortitude 0014 webBresku sjónvarpsþættirnir Fortitude, sem teknir hafa verið upp á Austurlandi, skipta miklu máli í aukinni veltu íslenskrar kvikmyndagerðar. Kvikmyndaframleiðandi segir verkefnið skipta miklu máli fyrir austfirskt efnahagslíf.


Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Velta kvikmyndagerðar, upptöku sjónvarpsefnis og myndbanda hérlendis nam 10,5 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins og hefur aldrei verið meiri.

Fortitude þættirnir eiga stóran þátt í þessari auknu veltu og Snorri Þórisson, eigandi kvikmyndagerðafyrirtækisins Pegasus, segir þá skipta miklu máli fyrir austfirskt efnahagslíf.

„Það störfuðu að jafnaði um 150 manns í íslenska starfsliðinu vegna þáttanna, sem voru teknir upp á Reyðarfirði.

Þeir sköpuðu líka fjölmörg afleidd störf. Við keyptum byggingarefni og ýmsa þjónustu hjá undirverktökum á svæðinu.

Einnig má nefna að ekki voru til nógu mörg hótelrými og því þurftum við að leigja herbergi og íbúðir hér og þar á Austfjörðum. Samtals koma því nokkur hundruð manns að slíku verkefni."

Sýningar þáttanna hefjast í janúar og fái þeir góðar viðtökur verða gerðar fleiri þáttaraðir. Góðar líkur eru á að svo verði og þær verði þá teknar upp eystra. Ekkert er þó fast í hendi um það enn.

„Það kemur ekki í ljós fyrr en í mars á næsta ári. Þá verður tekin endanleg ákvörðun um það. Það er nokkur stór biti. Við vorum hálft ár í þessu verkefni.

Við erum tilbúin í það áfram og miðast viðbúnaður okkar við það. Við erum með húsnæði á leigu fyrir austan þar sem við geymum mikið af búnaði."