Mótmæla minnkun kennslutímamagns

NesskoliStjórn foreldrafélags og fulltrúar foreldra í skólaráði Nesskóla í Neskaupstað gagnrýna nýjar viðmiðunarreglur um úthlutun kennslutímamagns. Þeir telja þær koma niður á börnum með námsörðugleika.

Í bréfi foreldranna er reglunum mótmælt og talað um niðurskurðaraðgerðir sem fulltrúar meirihlutans hafi samþykkt.

Með þeim sé vegið að réttindum þeirra barna sem minnst megi sín, svo sem þeim sem glími við námserfiðleika eða séu tvítyngd.

Varað er við því að niðurskurðurinn bitni sérstaklega á Nesskóla og samsvari allt að tveimur stöðugildum.

„Þetta gengur þvert á þann anda sem ríkir nú í þjóðfélaginu þar sem rík áhersla er lögð á að bæta læsi og minnka brottfall úr framhaldsskólum. Einnig teljum við að brýnt sé að hlúa að starfsmönnum skólans sem vinna nú þegar undir miklu álagi.

Mikilvægt er að skólakerfið standi vörð um hagsmuni þessara einstaklinga og teljum að minnkað kennslutímamagn muni koma niður á öllum nemendum skólans," segir í bréfinu þar sem vitnað er til stefnuskrá framboðanna í Fjarðabyggð fyrir kosningar í vor.

Farið var yfir reglurnar á fundi fræðslunefndar í síðustu viku þar sem fulltrúi minnihluta Fjarðalistans bókaði fyrirvara við endurskoðun kennslutímamagns.

Í bókun meirihlutans um viðmiðunarreglurnar segir hins vegar að skólarnir eigi að njóta sjálfstæðis við ráðstöfun þess kennslutímamagns sem þeim sé ráðstafað. Stærð námshópa og samsetning þeirra verði áfram á valdi skólanna sem gæti þess að ráðstafa tímunum þannig þeir nýtist nemendum og skólum sem best.

Foreldrarnir skora á bæjarráð og bæjarstjórn að hafna reglunum og standa þannig vörð um framtíð barnanna. Bæjarráðs fundur stendur nú yfir en bæjarstjórn kemur saman á fimmtudag þar sem seinni umræða um fjárhagsáætlun er á dagskrá.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.