30 ár frá slysinu í Vöðlavík

10. janúar síðastliðinn voru 30 ár liðin frá því að Goðinn fórst í Vöðlavík, með þeim hörmulegu afleiðingum að einn skipverja Goðans lést en sex var bjargað við illan leik. Félagar í björgunarsveitinni Brimrúnu fóru á dögunum í Vöðlavík og minntust atburðanna.

Slysið bar að með þeim hætti að 18. desember 1993 strandaði rækjubáturinn Bergvík VE í Vöðlavík. Illa gekk að draga bátinn á flot að nýju þrátt fyrir aðstoð Landhelgisgæslunnar við verkið. Því var björgunarskipið Goðinn, björgunarskip tryggingafélaganna sent á staðinn snemma árs 1994. Goðinn hafði komið að björgun yfir fimmtíu skipa áratugina þrjá á undan og verið afar farsælt.

Aðgerðir hófust 9. janúar og tókst Goðanum að snúa Bergvíkinni og stóð til að Goðinn myndi halda við hana yfir nóttina, á meðan beðið var varðskips sem var á leið til aðstoðar. Snemma morguns 10. janúar, um sexleytið, kom hins vegar mikið brot á Goðann og skömmu síðar annað. Tveir menn voru þá í brúnni, Kristján Sveinsson skipstjóri og Geir Jónsson stýrimaður, tengdasonur Kristjáns. Geir tók út með brotinu og fórst hann.

Við brotið eyðilögðust öll stjórntæki í brúnni, það drapst á vélinni og rafmagn fór af Goðanum. Hann rak síðan stjórnlaust að landi og tók niðri í grynningum. Skipverjarnir gátu haldið til í brúnni fyrsta kastið en eftir því sem meiri sjó tók inn í Goðann versnaði staðan. Þegar björgunarsveitarmenn komu niður í fjöru í Vöðlavík á tíunda tímanum um morguninn, í því skyni að aðstoða við björgun Bergvíkurinnar, urðu þeir þess áskynja hvað gerst hafði. Höfðu skipverjar forðað sér upp á brúarþakið og bundið sig þar niður, þar eð brim gekk stanslaust yfir þá. Veðrið var enda afar slæmt.

Bjargað við afar erfiðar aðstæður

Enginn möguleiki var á að koma línu út í Goðann og var því kallað eftir aðstoð björgunarþyrla. Tvær þyrlur bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli fóru í loftið ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél gæslunnar einnig. Veður var hins vegar þarnnig að bæði þyrla og flugvél gæslunnar urðu frá að hverfa yfir Suðurlandi. Þyrlur hersins héldu hins vegar áfram för.

Varnarliðsþyrlurnar voru ekki komnar á strandstað fyrr en um þrjú um daginn, og höfðu skipverjar þá hafst við á þaki brúar Goðans í um það bil fimm tíma. Búið var að bjarga mönnunum sex um klukkan 15:40 en mikil ókyrrð var og aðstæður mjög erfiðar. Unnu áhafnir varnarliðsþyrlanna afrek við björgunina.

Skipverjar voru ferjaðir upp í fjöruna þar sem björgunarsveitarmenn tóku á móti þeim. Tveir þeirra voru hins vegar svo þrekaðir að flytja varð þá á sjúkrahús í Neskaupsstað. Fóru þyrlurnar með mennina en máttu þakka fyrir að brotlenda ekki annari þyrlunni á Mjóafjarðarheiðinni. Leituðu þeir að ljósum í Neskaupsstað og lentu þeir þyrlunum á bílaplaninu við Kaupfélagið.

Slysið í Vöðlavík varð til þess að sterkt ákall varð um að Landhelgisgæslan fengi í sína þjónustu öflugar björgunarþyrlur, sem síðan varð raunin. Áhafnir bandarísku þyrlanna hlutu mikið lof fyrir björgunina og voru sæmdir heiðursmerkjum fyrir vikið.

Goðinn björgun 1200px

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.