Dýrasta leikskólavistin á Fljótsdalshéraði
Leikskólagjöld eru hæst á landsvísu á Fljótsdalshéraði þegar borið er saman gjald fyrir níu tíma vistun ásamt fæði meðal fimmtán stærstu sveitarfélaga landsins. Fjarðabyggð er eitt af þremur sveitarfélögum í hópnum sem ekki hækkuðu gjaldskrá sína á milli ára.
Þetta kemur fram í nýlegri úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.
Á Fljótsdalshéraði kostar níu tíma vistun með fæði 43.560 á mánuði sem er um tíu þúsund krónum hærra en í Skagafirði þar sem hún er ódýrust. Í Fjarðabyggð kostar hún 38.897 krónur.
Átta tíma vistun með fæði er dýrust í Garðabæ en næst dýrust á Fljótsdalshéraði, 34.560 og þriðja dýrust í Fjarðabyggð 33.730.
Dýrir tímar en ódýrt fæði
Hátt tímagjald er sameiginlegt með báðum sveitarfélögunum, 3.325 krónur á Fljótsdalshéraði en 3.167 í Fjarðabyggð. Lægsta tímagjaldið er í Reykjavík, 2.260 krónur.
Á móti kemur að fæðisgjaldið er fremur lágt. Hádegismaturinn kostar tæpar 4.200 krónur hjá hvoru sveitarfélagi samanborið við 6.840 krónur í Garðabæ sem er hæstur.
Tímagjaldið á Fljótsdalshéraði hækkaði um 5% um síðustu áramót en fæðisgjaldið stóð í stað. Engar hækkanir voru í Fjarðabyggð.
Forgangshópar líka dýrastir
Fljótsdalshérað er einnig dýrast þegar borin eru saman verð forgangshópa. Níu tíma vistun, með fæði, í forgangshóp kostar þar 34.688 krónur og 26.346 í Fjarðabyggð. Ódýrust er hún í Reykjavík, 20.495 krónur á mánuði. Aðeins í Reykjanesbæ kostar forgangsvistun yfir þrjátíu þúsund krónur.
Dæmið snýst við þegar horft er til átta tíma vistunar með fæði í forgangshópi. Hún er þar dýrust í Fjarðabyggð, 26.129 kr. á mánuði en næst dýrust á Fljótsdalshéraði, 25.688. Ódýrust er hún í Reykjavík, rúmar 15.300 krónur.
Í athugasemdum með úttektinni segir að leikskólinn í Brúarási sé ekki tekinn með í tölum Fljótsdalshéraðs. Mikill munur á milli átta og níu tíma vistunar skýrist af því að tímagjald umfram átta klukkustundir er 9.000 krónur í sveitarfélaginu.
Sveitarfélögin fimmtán sem borin voru saman í könnunni eru: Reykjavík, Akureyri, Garðabæ, Hafnarfjörður, Kópavogur, Ísafjarðarbær, Akranes, Mosfellsbær, Árborg, Skagafjörður, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Reykjanesbær Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Auk Fjarðabyggðar var gjaldskráin óbreytt á Seltjarnarnesi en í Ísafjarðarbæ lækkaði hún.
Heildarniðurstöður könnunarinnar má sjá hér á vef ASÍ.