Skip to main content

Jónína Rós: Hef trú á að það sem kemur upp úr kössunum verði betra en kannanirnar segja

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. apr 2013 11:10Uppfært 04. maí 2013 14:32

Jónína Rós: Hef trú á að það sem kemur upp úr kössunum verði betra en kannanirnar segjaJónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist bjartsýn að morgni kjördag. Kosningabaráttan hafi verið drengileg og kjósendur málefnalegir og forvitnir um stefnu flokkanna.

 „Dagurinn leggst vel í mig. Við erum búin að vinna vel og ég er ánægð með baráttuna,“ segir Jónína Rós.
 
Hún kaus á Egilsstöðum um ellefu leytið í morgun á sama tíma og formaður Framsóknarflokksins mætti á kjörstað. 

Í samtali við Austurfrétt sagðist Jónína ánægð með kosningabaráttuna. „Hún hefur verið drengileg. Ég hef ekki lent í neinu skítkasti, bara málefnalegri umræðu.

Auðvitað er alltaf einn og einn með sínu föstu, ákveðnu skoðanir og þá vær maður alveg að heyra þær, annars hefur mér fundist þetta vera málefnalegt og fínt.“

Þannig hafi verið sérstök upplifun að vera á Akureyri þar sem kosningaskrifstofur flokkanna séu í einum hnapp og mikil umræða úti á götu.

Jónína ætlar að vera á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar á Egilsstöðum í kvöld en bjóst við að renna til Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar í dag.

Könnun Gallup sem Austurfrétt birti í gær gefur til kynna að Jónína Rós haldi ekki þingsæti sínu en flokkurinn var þar með 11% fylgi í kjördæminu. Jónína segist bíða róleg fram á kvöld.

„Við höfum verið dugleg. Nú sjáum við bara hvað dagurinn ber í skauti sér og hvað kemur upp úr kössunum í kvöld. Ég hef trú á að það verði alla veganna betra en skoðanakannanir segja til um.“