Sigmundur Davíð fluttur í Hrafnabjörg: Góður andi í húsinu og fallegt umhverfi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og oddviti hans í Norðausturkjördæmi, flutti nýverið lögheimili sitt á Hrafnabjörg 3 í Jökulsárhlíð. Hann segist hafa hrifist af umhverfinu í Hlíðinni.

„Ég flutti fyrir um mánuði síðan en það hefur legið lengur fyrir að ég væri að flytja á þennan stað enda hef ég verið hrifinn af þessum umhverfi frá því ég kom hingað fyrst og byrjaði að taka þátt í pólitíkinni.“

Jónas Guðmundsson, bóndi á Hrafnabjörgum, er einn af þeim sem hvöttu Sigmund Davíð fyrir fimm árum síðan til að gefa kost á sér sem formaður flokksins.

„Þetta er mjög fallegt hús sem Jónas hefur verið að gera þarna upp. Það er góður andi í húsinu og umhverfið fallegt. Ég kann mjög vel við mig hjá honum þannig að þegar tækifærið á að búa hér gafst þá stökk ég á það.“

Sigmundur Davíð var á Egilsstöðum í gær á sínum síðasta opna fundi fyrir kosningarnar á laugardag en framundan eru leiðtogakappræður í sjónvarpi í kvöld og á morgun. 

„Kosningabaráttan hefur snúist um okkar flokk og okkar mál,“ sagði hann og bætti við að fáir efuðust lengur um forsendurnar fyrir nauðsyn þess að ráðast í aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilanna sem flokkurinn hefur lagt áherslu á.

Þá væri sýnt að vogunarsjóðirnir myndu vilja komast út með að minnsta kosti hluta af hagnaðinum sem þeir eiga í íslensku bönkunum. Spurning sé hvernig þeir losni og hversu mikið þeir þurfi að gefa eftir. Um útfærsluna sé helst deilt á milli framboða.

„Hagkerfi undir skuldafargi kemst ekki í gang,“ sagði Sigmundur og benti á að heimsþekktir hagfræðingar á borð við Paul Krugman og Joseph Stieglitz hefðu talað á svipuðum nótum.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.