Niðurskurður í skógrækt hefur alvarleg langtímaáhrif og bitnar helst á landsbyggðinni

lilja_magnusdottir_skogur.jpgSá samdráttur sem orðið hefur í skógrækt undanfarin ár á eftir að leiða til niðursveiflu í greininni eftir áratugi vegna hráefnisskorts. Niðurskurðurinn bitnar harðast á landsbyggðinni og svæðum þar sem atvinnulíf er þegar einhæft.
 
Þetta kemur fram í meistaraverkefni Lilju Magnúsdóttur í skógfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem hún rannsakaði hagræn áhrif landshlutaverkefna í skógrækt. Niðurstöðurnar voru kynntar á Fagráðstefnu skógræktarinnar sem haldin var á Hallormsstað fyrir skemmstu.

Lilja kannaði áhrif landshlutaverkefnanna fimm á árunum 2001-2010 en markmið þeirra samkvæmt lögum var meðal annars að stuðla að atvinnuuppbyggingu á starfssvæðum verkefnanna.

Ársverkin voru að meðaltali 81,4 á tímabilinu og skiptust þannig að bændur unnu 36,8, starfsmenn verkefnanna 19,2 og 25,3 voru hjá plöntuframleiðendum. Árið 2001 voru ársverkin alls 63,2 en urðu flest 98,6 árið 2007. Í lokin, árið 2010, voru þau 67,1.

Verðum að hugsa um afurðir framtíðarinnar

Þessi niðursveifla er það sem veldur Lilju mestum áhyggjum. „Þetta á eftir að hafa alvarleg langtímaáhrif. Það er ekki nóg með að það fækki plöntum í gróðursetningu núna heldur verða minni skógar til að grisja þegar þar að kemur. 

Lokahöggið kemur síðan eftir 60-80 ár þegar hráefni skortir í vinnsluna sem búið verður að koma upp. Ef við ætlum að fá skógarafurðir í framtíðinni þá verðum við að hugsa fyrir því núna.“

Hún segir niðurskurðinn í skógræktinni bitna harðast á landsbyggðinni. „Þessi verk eru unnin í hinum dreifðari byggðum þar sem atvinnulífið er oft einhæft. Það má kalla þetta niðurskurð á atvinnu á landsbyggðinni.“

Mikil vinna framundan til að hámarka verðmætin

Búið er að þinglýsa samninga við bændur um gróðursetningu í ríflega 46.000 hektara. Enn sem komið er hefur ekki verið gróðursett í nema þriðjung þeirra. Ætli ríkið að standa við sitt á því eftir að gróðursetja í 30.000 hektara fyrir árið 2040.

„Það tekur einn mann um viku að gróðursetja í hektarann. Við erum því að tala um 600 ársverk á þessu tímabili eða um 20 verk á ári.“

Þá þurfa menn að hugsa fyrir grisjun til að ná hámarksnýtingu á skóginum. „Það þarf að grisja skóginn ekki síðar en þegar hann er 20-25 ára. Það tekur manninn viku að grisja einn hektara þannig að 1000 hektarar af skógi þýða 25 ársverk í grisjun.

Grisjunarvinnan er mjög aðkallandi. Ef skógurinn verður of gamall verður hún dýrari og hámarksarðsemi fæst ekki úr skóginum. Við getum skapað mikla atvinnu, verðmæti og gjaldeyri ef við höldum rétt á spilunum.“

Ódýr störf

Hún bendir einnig á að þessi störf séu tiltölulega ódýr í samanburði við önnur. „Að meðaltali var þetta 81 ársverk á þessum tíu árum. Til samanburðar má nefna kísilmálmverksmiðju á Suðurnesjum sem var í umræðunni í fyrra og átti að búa til 90 ársverk.

Kostnaður við hana var 17 milljarðar en fjárveitingar til landshlutaverkefnanna á þessum tíu árum miðað við verðlag ársins 2010 eru 5,5 milljarðar. Fjárveitingarnar í verkefnin í ár eru 387 milljónir. Þótt þær hafi ekki verið nema 380-90 milljónir í fyrra sköpuðu þau samt 47 ársverk.“

Lilja slær þó þann varnagla að samanburðurinn sé mjög einfaldaður. „Ég myndi samt segja að þetta væru ódýr störf.“

Þá er ótalin vinna sem bændur vinna launalaust við umhirðu skóganna. Menn fari út í skóg til að klippa tvítoppa af plöntunum, troði niður gras sem skyggi á nýgræðlinga og reki beitardýr úr girðingunni. Miðað við könnun hennar vinna bændurnir um 19 daga á ári í sjálfboðaliðavinnu við umhirðu á skógum sínum.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.