Höskuldur: Fólk úr borginni á ekki að koma í frítíma sínum og taka vinnu af fiskverkafólki

hoskuldur_xb_me13.jpgTryggja verður að strandveiðar séu ekki þannig útfærðar að þeir sem haft hafi lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi verði fyrir skaða. Mikilvægara er að nota orkuauðlindir til að skapa störf á Íslandi fremur en selja rafmagn um sæstreng til Evrópu.
 
„Við verðum að tryggja að strandveiðar séu stundaðar af þeim sem hafa sótt sjóinn, að ekki sé verið að taka vinnu af fiskverkafólki hér niður á fjörðum.

Einhvern vegin verður að tryggja að aðilar af höfuðborgarsvæðinu, eða hvaðan sem er, komi ekki hingað í frítíma sínum og tryggi sér gríðarmiklar tekjur,“ sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, Framsóknarflokki, á opnum framboðsfundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Höskuldur sagði Framsóknarmenn vana harði gagnrýni á efnahagstillögur sínar. „Það var sagt í IceSave og um hugmyndir okkar um 20% leiðréttingu skulda að þær væru óábyrgar og óraunhæfar. Það er ekki sanngjarnt að vogunarsjóðirnir græði 300 milljarða á heimilum landsins.“

Hann lýsti verðandi þingmenn flokksins tilbúna til að „skoða allar tillögur hvaðan sem þær koma til að vinna á vanda heimilanna,“ og að þeir myndu taka „rökræðuna en ekki kappræðuna.“

Höskuldur benti á að hægt væri að nýta ýmsar náttúruauðlindir til að skapa fleiri störf. „Ég er ekki reiðubúinn að selja auðlindir úr landi og ég er ósammála því að raforka verði seld úr landi í gegnum sæstreng. Við eigum frekar að skapa störf hérlendis.“

Hægt er að hlusta á fundinn í heild sinni á vef Útvarps Seyðisfjarðar.





Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.