Skip to main content

4% Austfirðinga í einangrun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2022 19:01Uppfært 22. feb 2022 19:01

Yfir 160 ný Covid-smit greindust á Austurlandi í gær eða rúmur helmingur þeirra sem fóru í sýnatöku.


Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar.

Í gær fóru 310 í PCR-sýnatöku, af þeim reyndust 162 smitaðir. Hlutfallið er svipað og á sunnudag.

Samkvæmt Covid-korti RÚV voru 50 tilfellanna á Egilsstöðum, 16 á Seyðisfirði, 12 í Neskaupstað og 17 á Vopnafirði.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar kemur fram að 429 séu nú í einangrun í fjórðungnum eða um 5% íbúa. Þar af 122 grunnskólabörn og 34 börn á leikskólaaldri eða yngri. Smitaðir hafa aldrei verið fleiri.

Við þetta má bæta að veiran hefur líða lagst harkalega á kennara og starfsfólk skóla sem aftur hefur haft veruleg áhrif á allt skólahald.

En þar með er ekki sagan sögð. Aðgerðastjórnin bendir á að fleiri stofnanir og fyrirtæki séu í vandræðum með mannskap vegna veirunnar, til dæmis Heilbrigðisstofnun Austurlands þar sem staðan hafi aldrei verið erfiðari.

„Því er enn á ný hvatt til þess að við förum gætilega um gleðinnar dyr þrátt fyrir tilslakanir á sóttvarnareglum, hvort heldur þegar til komnar eða fyrirhugaðar. Höldum áfram að gæta að okkur meðan enn eru skaflar þarna úti.“