44% innkaupa Síldarvinnslunnar í nærsamfélaginu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. apr 2022 11:38 • Uppfært 20. apr 2022 15:32
Síldarvinnslan stundar langmest viðskipti í þeim sveitarfélögum þar sem fyrirtækið er með starfsemi. Félagið hefur á síðustu árum gripið til ráðstafana til að draga úr olíunotkun en hún veltur alltaf á gegnd fiskistofna.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í Samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar fyrir árið 2021. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið gefur út slíka skýrslu. Þar er starfsemi félagsins tengd við nokkur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, svo sem nýsköpun, jafnrétti, loftslagsmál og líf í vatni og gerð grein fyrir aðgerðum og árangri á þeim sviðum.
Síldarvinnslan vill vera í fararbroddi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og reynum við ávallt að gera betur og nálgast umhverfið af virðingu þar sem reynt er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Að sama skapi viljum við standa okkur gagnvart okkar verðmæta starfsfólki og þeim samfélögum sem starfsemi félagsins nær til.
Í skýrslunni setjum við í fyrsta sinn fram þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eiga við um okkar áherslur í samfélags- og sjálfbærnimálum. Samfélagsskýrslan er liður í að greina frá því sem vel er gert og einnig fara yfir það sem betur má fara, því það eru alltaf tækifæri til úrbóta,“ segir í inngagnsorðum Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Engin kvörtun vegna eineltis
Sem fyrr segir eru 44% innkaupa Síldarvinnslunnar frá birgjum í nærsamfélagi, það er þeim sveitarfélögum sem Síldarvinnslan starfar. Starfsstöðvar eru í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, á Akureyri og Seyðisfirði. 34% innkaupa eru frá öðrum innlendum birgjum og 22% erlendis frá.
Hjá félaginu starfa 365 starfsmenn, þar af eru 85% karla. Í texta segir að reynt sé að höfða til umsækjenda óháð kyni þegar störf losni. Stjórnendur eru 94% karlar en hlutföllin í stjórninni 60% karlar og 40% konur, í samræmi við stefnu.
Gerð er grein fyrir markmiðum um velferð starfsfólks, meðal annars eigi aðeins að nota þjónustu undirverktaka sem beri virðingu fyrir réttindum starfsfólks, svo sem kjarasamningum. Engar kvartanir bárust félaginu vegna meðferðar persónuupplýsinga né eineltis á síðasta ári.
Sex fjarveruslys voru skráð á skipum félagsins og 14 í landvinnslu, sem er aukning milli ára. Áhersla á öryggismál er sögð hafa skilað árangri en slys séu enn of mörg.
6,6 milljarðar til samfélagsins
Samfélagsspor er reiknað upp á 6,6 milljarða, þar af er um helmingurinn skattar sem fyrirtækið innheimtir af starfsfólki fyrir hönd ríkisins. Uppistaðan í afganginum eru 1,15 milljarðar í tekjuskatt. Þar á eftir koma um 600 milljónir sem mótframlag í lífeyrissjóði, rúmar 500 milljónir í veiðigjald, 417 milljónir í tryggingagjald, tæpar 240 milljónir í hafnarsjóði 224 milljónir í kolefnisgjald.
Félagið veitti styrki upp á 48,4 milljónir, þar af fóru 23,4 milljónir til íþróttastarfs. Meðal annarra styrkja voru björgunarmál, heilbrigðismál og menning.
Reynt að draga úr olíunotkun
Kolefnisspor af starfsemi Síldarvinnslunnar var 54.628 tonn í fyrra. Það aukning upp á 16% sem skýrist af auknum veiðum og olíunotkun fiskimjölsverksmiðja en sem kunnugt er ollu takmarkanir í raforkukerfinu því að ekki var hægt að afhenda orku til fiskimjölsverksmiðjanna. Í skýrslunni er þó bent á að árið 2003 hafi bræðslur félagsins notað 18 milljónir lítra af olíu, hið sama og fiskiskipafloti þess noti í dag, meðan bræðslurnar hafi brennt 1,4 milljónum lítra.
Síðasta sumar tók félagið í notkun raftengingu fyrir skip við löndun. Hún á að spara um 300.000 lítra af olíu á ári. Komið er inn á hvernig ganga fiskistofna hafi áhrif á notkunina, meiri olíu þurfi ef stofnanir séu fjarri landinu. Þótt heildarnotkun ísfiskstogaranna ykist minnkaði losun á hvert veitt tonn. Hröð þróun á rafeldsneyti sem nýst geti fiskiskipum er lýst sem jákvæðri.
Síldarvinnslan keypti í fyrra jörðina Fannardal og áformar þar skógrækt. Íslenska ríkið hefur lýst kröfum í jörðina sem þjóðlendu. Um það segir að málið geti tekið talsverðan tíma og á meðan óvissa ríki verði ekkert stórt gert þar.
Síldarvinnslan hefur staðið fyrir átaki til að bæta flokkun á sorpi og skráningu. Heildarmagn sorps var tæp 547 tonn, þar af voru 73% eða um 400 tonn flokkuð. Er það ögn hærra hlutfall en árið áður.