Skip to main content

Nálægðin við hreindýr, jöklana og dalina ekki síður söluvænleg en austfirska sumarið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2013 23:37Uppfært 19. maí 2013 23:38

magnea hjalmarsdottir icelandairhotelsForsvarsmenn Icelandair hyggja á aukna markaðssetningu á ferðum til Austurlands á veturna á næstu misserum, sérstaklega á Bretlandsmarkaði. Efla þarf framboðið á þeirri afþreyingu sem er í boði allt ársið á svæðinu.


Þetta kom fram í máli Magneu Hjálmarsdóttur, stjórnarformanns Icelandair Hotels, þegar aðalsalur Hótels Héraðs var opnaður á ný eftir endurbætur fyrir skemmstu.

Endurbæturnar voru hluti af endurskilgreiningu vörumerkis hótelkeðjunnar þar sem aukin áhersla er lögð á sérstöðu hvers hótels og nærumhverfis. Þannig hefur hótelið á Egilsstöðum fengið nýtt merki með hreindýri.

Magnea segir merkið endurspegla „vetraráherslu“ Icelandair hyggst fara í átak í markaðssetningu Austurlands í vetrarferðamennsku. „Nálægðin við hreindýrin, jöklana og dalina er ekki síður söluvænleg en austfirska sumarið.“

Hún nefndi hvernig vetrarferðamönnum á Akureyri hefði á fáum árum fjölgað úr 800 í 6000 með markaðsátaki. „Við þurfum þennan hóp líka hingað,“ sagði Magnea.

Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að bæði fyrirtæki í ferðaþjónustu og sveitarfélög sameinist um uppbyggingu. Það gerðist fyrir norðan og skilaði árangri.

„Hér á Austurlandi þurfum við öll í sameiningu að tryggja að áfangastaðurinn standi undir loforðunum um þessa einstöku íslensku upplifun. Þjónustan verður að vera stöðug og það hefur verið galli að ákveðnir hluti hafa ekki verið í boði allt árið.“