Skip to main content

Björgunarsveitin Vopni bjargaði skít

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2013 23:59Uppfært 05. jún 2013 14:56

vopni skitbjorgunVerkefni björgunarsveita geta verið jafn misjöfn og þau eru mörg. Því fengu björgunarsveitarmenn í Vopna á Vopnafirði að kynnast í dag þegar bóndi í sveitinni hringdi í þá og bað um aðstoð við að bjarga skít.


„Bóndinn sem bar þetta erindi upp sagði reyndar að þetta hljómaði undarlega en þegar hann var búinn að útskýra betur málavöxtu þá var ekki annað hægt en að bregðast fljótt við og bjarga þessum verðmætum,“ segir í færslu á Facebook-síðu Vopna.

Útkallið barst um klukkan sex í dag en Hofsá hafði vaxið mjög og flæddi yfir bakka sína. Um var að ræða kindatað sem bóndinn hafði stungið út með tilheyrandi erfiði og var að þurrka það á Hofsáreyrum en hann notar það til að reykja hangikjöt.

Nokkrir félagar í bjögunarsveitinni Vopna komu á vettvang með bát og settu taðið í poka og ferjuðu í land.

Í frétt Vopna segir að óvenjumiklir vatnavextir séu í vopnfirsku ánum, eins og víða annars staðar. Æðarbændur hafi orðið fyrir miklu tjóni. Flest hreiður hafi flotið upp og sum tvisvar. Bændur reyndu að færa til hreiður í gær en áin óx enn meir í dag og kæfði þau aftur.

Mynd: Björgunarsveitin Vopni