Skip to main content

Faldi þýfi í bíldekkjum og reyndi að smygla með Norrænu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. jún 2013 19:09Uppfært 06. jún 2013 19:09

tollur norraena mai13 thyfiTollverðir á Seyðisfirði haldlögðu mikið magn þýfis sem reynt var að koma úr landi með Norrænu í síðustu viku. Þýfið fannst í bifreið manns sem var einn á ferð.


Í frétt frá Tollstjóranum kemur fram að meðal annars hafi fundist 355 kíló af kopar sem falin hafi verið í bifreiðinni. Einnig 180 kíló af muldu síuefni úr hvarfakútum, sem falin voru í plastpokum í fjórum jeppadekkjum.

Þá fannst glussaklippukjaftur, sem talinn er hafa verið notaður til að klippa hvarfakúta undan bílum. Mikið magn snyrtivara var einnig falið víðs vegar í bíl mannsins svo og sterkur segull, sem ætlað er að hafi verið notaður til að trufla öryggishlið í verslunum.

Að auki fundu tollverðir í bílnum 20 lítra brúsa með díselolíu og öfluga flugeldatertu, en hvoru tveggja er óheimilt að flytja með Norrænu.

Maðurinn sem um ræðir var aðili að umfangsmiklu hvarfakútamáli, sem upp kom á Seyðisfirði í apríl, þegar reynt var að smygla rúmlega 400 keramikeiningar úr nýjum og notuðum hvarfakútum úr landi.

Þýfið var afhent lögreglu en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið.

Þá handlögðu tollverðir mikið magn af bjór, víni og pylsum sem komu með fjórum þýskum rútum með ferjunni. Í Evrópu eru ferðamenn vanir að taka vistir með sér á milli landa en miklar takmarkanir eru á því hérlendis.