Skip to main content

60 ár síðan fyrsta skip Síldarvinnslunnar kom til Neskaupstaðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. mar 2025 14:03Uppfært 06. mar 2025 14:40

Töluverð tímamót urðu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað í gær þegar slétt 60 ár voru liðin frá því að allra fyrsta fiskiskip fyrirtækisins kom til hafnar í bænum.

Skipið sem hér um ræðir var Barði NK 120, sem var 264 lesta síldarskip, en það sigldi fyrsta sinni inn fjörðinn þann 5. mars 1965. Nokkuð á eftir áætlun þó sökum þess að við reynslusiglingu skipsins í Austur-Þýskalandi vildi ekki betur til að það lenti í árekstri við flutningarskip og skemmdist töluvert.

Aðeins tveimur mánuðum síðar bættist systurskip þess, Bjartur NK 121, við en skipin voru sérstaklega keypt til að tryggja hráefni til vinnslu yfir vetrartímann. Fyrirtækið sjálft var þó stofnað í desember 1957 eða sex árum áður en skipin tvö komu til hafnar fyrsta sinni en fram að þeim tíma einskorðaðist öll vinnsla við síld.

Á vef Síldarvinnslunnar er þessum tímamótum gerð góð skil en þar kemur meðal annars fram að allnokkur mótmæli urðu gegn því frá öðrum útgerðarmönnum í bænum að Síldarvinnslan keypti skip og hæfi þar með eigin útgerð.

Koma Barða NK 120 markaði upphaf eigin útgerðar Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á sínum tíma. Síðan eru liðin slétt 60 ár. Mynd Síldarvinnslan/Guðmundur Sveinsson