Skip to main content
Stöðvarfjörður. Sævarendi er lengst til vinstri í myndinni. Á iðnaðarsvæðinu þar er ein skemmubygging í dag. Mynd: GG

Leggja til stækkun iðnaðarsvæðis við Sævarenda vegna umsvifa fiskeldis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2025 10:56Uppfært 13. nóv 2025 10:58

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur lagt fram til kynningar tillögu að breytingu á bæði aðal- og deiliskipulagi vegna stækkunar iðnaðarsvæðis við Sævarenda á Stöðvarfirði.

Sævarendi er innst í þéttbýlinu og til þessa hefur aðeins innsti hluti svæðisins verið nýttur undir iðnað. Í greinargerð með skipulaginu segir að nú sé kallað eftir meira plássi vegna starfsemi sem tengist fiskeldi.

Breytingin felur það í sér að iðnaðarreitur verður stækkaður um 65 metra út eftir, eða til austurs. Hafnarsvæðið verður aðeins lengt á móti. Svæðin stækka yfir opið svæði fyrir neðan bílastæði Steinasafnsins. Íbúðareitur ofan Sævarenda verður einnig stækkaður lítillega.

Við þetta verður meðal annars til nýr vegur meðfram sjónum sem tengir hafnarsvæðið og iðnaðarsvæðið. Hann á að draga úr umferð um Sævarenda.

Samkvæmt skilmálum er lögð áhersla á snyrtilega iðnaðarstarfsemi á svæðinu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að hægt sé að draga búnað fyrir sjókvíaeldi á land.

Frestur til að senda inn athugasemdir við tillögurnar er til 1. desember.