600% hækkun á póstburðargjöldum hefur áhrif á dreifingu Dagskrárinnar
Sú ákvörðun Póstsins að hætta dreifingu á fjölpósti á landsbyggðinni frá og með áramótunum hefur drjúgar afleiðingar í för með sér fyrir útgáfuaðila á borð við Héraðsprent sem prentar og gefur út hina vinsælu Dagskrá á Austurlandi. Kostnaður við að dreifa hverju eintaki blaðsins hækkaði þar með um 600 prósent.
Svo gríðarleg hækkun í einu vetfangi þýðir að það svarar engan veginn kostnaði lengur að dreifa Dagskránni með pósti í hús eins og raunin hefur verið að hluta til með blaðið en þó því sé dreift með blaðberum víðast hvar er það ekki raunin í sveitunum á Héraði né heldur í Neskaupstað.
Að sögn Gunnhildar Ingvarsdóttur, eins eigenda Héraðsprents, er nú verið að skoða hvernig leysi megi úr þessum vanda en eitthvað verði líklega undan að láta.
„Hingað til hefur hvert eintak af Dagskránni í pósti kostað þetta 37 til 45 krónur eftir þyngd hverju sinni en nú er staðan orðin sú að hvert póstlagt eintak kostar kringum 280 krónur. Þetta kemur kannski verst við okkur í Neskaupstað þar sem okkur hefur, þrátt fyrir tilraunir, ekki tekist að fá blaðbera til að dreifa blaðinu þar í bæ. Við erum reyndar enn vongóð um að við finnum áhugasama aðila sem vilja taka það að sér enda kemur ekki til greina að sleppa dreifingu þar.“
Ein hugmynd sem er til skoðunar er að koma blaðinu í sérstaka standa í matvöruverslunum á borð við Nettó og Bónus á Egilsstöðum eða í Kjörbúðina í Neskaupstað enda þurfi velflestir að kaupa sér til matar og gætu þannig gripið eintak með sér vikulega. Gunnhildur segir það hugsanlega lausn að hluta til en tekur fram að ekki hafi verið rætt við verslanirnar enn sem komið er. Sjálf furðar hún sig mikið á hversu hljótt hefur farið um þessar miklu hækkanir fyrir landsbyggðarfólk en Pósturinn hætti slíkri fjölpóstdreifingu á suðvesturhorni landsins árið 2020.
„Það virðist ekki nokkur maður vera að tala um þessa hluti sem mér finnst skrýtið því þetta er varla landsbyggðinni til heilla. Ég veit að allmargir aðilar eins og félagasamtök sem gefa út blöð eða bæklinga eru í miklum vandræðum vegna þessa. Sjálf skrifaði ég tveimur þingmönnum okkar bréf út af þessum hækkunum þegar þetta var tilkynnt á síðasta ári. Ég heyrði ekkert frá öðrum þeirra en hinn viðurkenndi að hafa alveg misst af þessum tíðindum. Sá bað mig að hafa samband aftur ef ég hefði ekkert ekkert heyrt aftur eftir tvær vikur en ég heyrði aldrei neitt meira. Þeir virtust engan áhuga hafa á málinu.“
Fyrsta blað Dagskrárinnar á nýja árinu kemur út í næstu viku og það mun verða póstsent áfram þangað til önnur farsæl lausn finnst.