Ferðafólk varað við djúpri lægð á morgun: Ekkert ferðaveður fyrir eftirvagna
Veðurstofan og Vegagerðin vara ferðafólk við hvassviðri sem spáð er á morgun. Óvenju kröpp lægð er á leið til landsins sem setja mun svip sinn á veðrið næstu tvo daga.Spáð er sunnan 5-15 metrum á sekúndu á Austurlandi. Þótt íbúar svæðisins eigi að sleppa betur undan lægðinni en aðrir landsmenn er ekki þar með sagt að þeir sleppi alfarið.
„Norðan- og austanlands er einnig gert ráð fyrir strekkingsvindi á morgun og þar er einnig hætt við staðbundnum vindhnútum,“ segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni.
Í tilkynningu frá VÍS er því beint til ökumanna húsbíla og þeirra sem ferðast með eftirvagna að gæta vel að sér á morgun þar sem vindur og vindhviður hafi mikil áhrif á stöðugleika ökutækja. Ökumenn þurfa einnig að vera meðvitaðir um vindhviður sem fylgt geta því að mæta stóru ökutæki.
Í viðvörun frá Veðurstofunni segir að ekki sé útlit fyrri að neitt ferðaveður sé framundan fyrir þá sem séu með aftanívagna.