Víðtækt og alvarlegt tjón: Tún víða mikið kalin eftir snjóþyngsli í vetur

kalid tun jokulsarhlidTún, einkum á Úthéraði, eru víða mikið kalin eftir snjóþungan vetur. Bændur hafa víða lagt nótt við nýtan dag að undanförnu við að rækta upp ónýt tún.

Dæmi eru um allt að 80% kal á jörðum og hleypur tap sumra ábúenda á milljónum króna. Víða hafa menn unnið frá morgni til kvölds í júnímánuði við að plægja og rækta upp nánast ónýt tún.

Forsvarsmenn Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) fóru um Fljótsdalshérað fyrr í mánuðinum. Á vef samtakanna segir eftir ferðina að „víðtækt og alvarlegt tjón sé út um allt Hérað, svo sem í Hróarstungu, Hjaltastaðaþinghá og Eiðaþinghá. Mjög verulegt tjón er á Jökuldal.“

Nokkuð kal er í Fellum og Jökulsárhlíð en ástandið mun skárra á Völlum, í Skriðdal og Fljótsdal, samkvæmt heimildum Austurfréttar. Nokkuð ber einnig á kali í Vopnafirði.

Bændur á þeim jörðum sem verst hafa orðið úti hafa hringt um sveitir og spurst fyrir um jarðir þar sem mögulega sé hægt að heyja í sumar.

Heyfengur var víða með minna móti fyrra og birgðirnar eru víða litlar eftir harðan vetur. „Miklu skiptir að sumarið verði gott svo hægt sé að afla nægilegs fóðurs fyrir næsta vetur, en fyrningar eru víða í algeru lágmarki eftir langan vetur,“ segir í frétt LS.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti fyrir helgi tillögu landbúnaðarráðherra um 350 milljóna stuðning við bændur á þeim svæðum sem illa hafa orðið úti vegna kals og snjóþyngsla.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að meginhluti fjárins mun fara til endurræktunar á túnum og fer úthlutunin fram í gegnum Jarðræktarsjóð. Þá mun nokkur hluti upphæðarinnar renna til bænda sem hafa haft umtalverðan kostnað vegna snjóþyngslanna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.