Könnun á mikilvægi innanlandsflugs fyrir landsbyggðina
Innanríkisráðuneytið vinnur nú að greiningu á mikilvægi innanlandsflugs fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Starfsmenn ráðuneytisins hafa undanfarið verið á ferð og flugi um landið að ræða málefni innanlandsflugs við íbúa og fyrirtæki á landsbyggðinni.Það er liður í samráðsferli um framkvæmd félagshagfræðilegrar greiningar á framtíð áætlunarflugs innanlands en það er eitt af stefnumótandi verkefnum sem skilgreind eru í samgönguáætlun 2011-2022.
Fundirnir voru haldnir til að fá fram sjónarmið íbúa og fyrirtækja á nokkrum af áfangastöðum áætlunarflugs á mikilvægi flugsins fyrir byggðarlögin. Í framhaldi af því mun fara fram könnun á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í byrjun júlí á mikilvægi flugsins fyrir íbúa á landsbyggðinni, gegnum síma og internet.
Fólk er eindregið hvatt til að taka þátt enda mikilvægt að renna stoðum undir frekari rekstrargrundvöll flugsins, sem stefnt hefur verið í tvísýnu undanfarin ár með miklum samdrætti í farþegafjölda.