Ríkissaksóknari ákærir fyrir manndráp
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Friðriki Brynjari Friðrikssyni fyrir að hafa orðið Karli Jónssyni að bana að heimili hans á Egilsstöðum aðfaranótt þriðjudagsins 7. maí.Í ákærunni er Friðriki Brynjar gefið það að sök að hafa banað Karli með því að „stinga hann tvisvar sinnum með hnífi í brjóstið og gengu hnífstungurnar í hægra hjartahólf og í framhaldi stungið hann ítrekað í háls, andlit, höfuð, hægri handlegg og vinstra læri, allt með þeim afleiðingum að Karl hlaut bana af.“
Ákært er fyrir manndráp en í þeirri grein hegningarlaga sem ákæran byggir á segir að hver sá sem svipti annan mann lífi skuli sæta fangelsi eigi skemur en fimm ár.
Ákæruvaldið fer fram á að Friðrik Brynjar verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Málið er höfðað fyrir héraðsdómi Austurlands.