Skip to main content

Sigríður Rún skipuð prestur í Egilsstaðaprestakalli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2013 15:39Uppfært 11. ágú 2013 22:43

sigridur run tryggvadottir webBiskup Íslands hefur skipað Sigríði Rún Tryggvadóttur, guðfræðing, í embætti prests í Egilsstaðaprestakalli frá og með 1. september. Sjö sóttu um starfið.


Í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni segir að tíu manna valnefnd prestakallsins hafi mælt með skipan Sigríðar. Hinir sem sóttu um starfið voru: Arnaldur Máni Finnsson, guðfræðingur, Elín Salóme Guðmundsdóttir, guðfræðingur,  Davíð Þór Jónsson, guðfræðingur, Sr. Hanna María Pétursdóttir, Inga Sigrún Atladóttir guðfræðingur og Sveinn Alfreðsson, guðfræðingur.

Sigríður Rún mun hafa aðsetur á Seyðisfirði og sérstakar starfsskyldur við Seyðisfjarðarsókn. Seyðisfjarðarprestakall var nýverið sameinað Egilsstaðaprestakalli. Sr. Cecil Haraldsson sóknarprestur lét af embætti fyrr í sumar.

Hún er fædd í Reykjavík árið 1975, lauk Cand Theol prófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands 2003 og hlaut embættisgengi sama ár. Undanfarin ár hefur hún sinnt margvíslegum störfum á sviði barna- og æskulýðsmála. 

Hún var æskulýðsfulltrúi í Fella- og Hólakirkju 2004-2009, verkefnastjóri Lífsleikni Þjóðkirkjunnar 2009-2011 og æskulýðsfulltrúi í Árbæjarkirkju 2009-2011. Þá var hún skólastjóri Farskóla leiðtogaefna á höfuðborgarsvæðinu 2011-2013.

Frá árinu 2011 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar.