Hæsti meðalhiti á landinu í júlí á Hallormsstað
Mestur meðalheiti á landinu í júlímánuði mældist á Hallormsstað. Mánuðurinn var sá þriðji hlýjasti í sögu veðurmælinga á Dalatanga en hann var Austfirðingum afar góður.Meðalhitinn á Hallormsstað mældist 12,2 stig og 11,4 á Egilsstaðaflugvelli. Langlægstur var hann hins vegar á Brúarjökli, 3,7 stig og á láglendi í Seley 8,2 stig, að því er fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar yfir tíðarfarið í nýliðnum júlí.
Meðalhitinn á Dalatanga var 9,8 stig og hefur aðeins tvisvar mælst meiri í júlí í 75 ára sögu veðurathugana þar, árin 1955 og 1984.
Meðalhitinn á Egilsstöðum mældist 11,7 stig sem er í hlýrra lagi og sömu sögu er að segja frá Teigarhorni í Berufirði.
Eitt dægurmet var slegið þann 10. júlí þegar hitinn mældist 26,1 stig á Egilsstaðaflugvelli. Eldra metið var frá Hallormsstað, 25,3 stig árið 1977.
Þá var sömuleiðis sett dægurlágmarksmet þegar hitinn fór niður í -3,9 stig á Brúarjökli 2. júlí. Heildarlágmarksmet júlímánaðar var ekki langt undan en það er -4,1 stig úr Möðrudal 21. júlí árið 1986.
Í Reykjavík var hitinn í meðallagi í sögulegu samhengi, rúmri gráðu lægri að meðaltali fyrir austan.