Efnt til samkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla

dyrfjoll helgi hallSveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur í samstarfi við Arkitektafélag Íslands standa fyrir hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla. Samkeppnin er öllum opin.

Svæðið nýtur vaxandi vinsælda sem göngusvæði enda er náttúran um margt einstök á landsvísu. Stefnt er að því að lausnir sem valdar verða að samkeppni lokinni geti með aðlögun nýst á öðrum svæðum á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra, þar sem áhugaverðar náttúruperlur er að finna. Þannig geti ferðamenn af útliti þeirra og gerð þekkt að um áhugaverð svæði sé að ræða innan sveitarfélaganna sem að samkeppninni standa.

Samkeppnin beinist að frágangi og mannvirkjum til nota á og við svæðið, frá aðkomuleiðum við þjóðveg og innan þess. Aðkomuleiðirnar geta orðið fleiri eða færri eftir atvikum, allt eftir því sem miðar við uppbyggingu þeirra. Samkeppnin skal taka til eftirfarandi atriða: Frágangs og merkingar bílastæðis við aðkomuleið, merkinga göngustíga, lausna til að skapa gott aðgengi og um leið til að hindra óþarfa slit og traðk utan merktra stíga, áningar og útsýnisstaða, upplýsingaskilta og snyrtiaðstöðu. Ekki er verið að kalla eftir skipulagi fyrir svæðið og því er svæðið ekki landfræðilega afmarkað.

Markmið útbjóðanda með samkeppninni er að fá fram hugmyndir að lausnum og mannvirkjum til að,
• styrkja staðarímynd Dyrfjalla og Stórurðar sem ferðamannastaðar (branding)
• varðveita huglægt gildi náttúru og lítt snortins víðernis, þrátt fyrir vaxandi umferð ferðamanna
• bæta aðgengi göngufólks að svæðinu Dyrfjöll - Stórurð
• merkja svæðið vel með vegvísum, gönguleiðarmerkjum og upplýsingatöflum
• stuðla að góðri umgengni sem hlífir viðkvæmri náttúru, m.a. með uppbyggingu eins eða fleiri áningarstaða með upplýsingum og snyrtingu

Keppnislýsinguna má nálgast á heimasíðu Arkitektafélags Íslands www.ai.is og Fljótsdalshéraðs www.fljotsdalsherad.is en keppnisgögn verða afhent á skrifstofu Arkitektafélags Íslands, gegn 5.000 kr. skilatryggingu, frá og með 15. ágúst 2013. Skilafrestur tillagna í samkeppnina er til 8. október 2013.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.