Skip to main content

Björgunarbátur dró annan bát í gang

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. ágú 2013 22:41Uppfært 19. ágú 2013 22:41

landsbjorg sjobjorgun webBjörgunarbáturinn Hafdís á Fáskrúðsfirði sinnti tveimur útköllum úti fyrir Austfjörðum á jafnmörgum dögum í síðustu viku. Í annað skiptið virðist hún hreinlega hafa dregið vélarvana bát í gang.


Fyrra útkallið var á miðvikudag en báturinn aðstoðaði þá tvo handfærabáta til hafnar á Breiðdalsvík. Stýrisbúnaður annars bátsins bilaði og þegar hinn ætlaði að draga þann til hafnar slitnaði dráttarlínan og flæktist í skrúfuna á honum svo hann varð stjórnlaus.

Aðrir bátar komu þá til hjálpar og drógu þessa tvo í átt til Breiðdalsvíkur. Hafdísin var fyrst björgunarbáta á vettvang og tók við drættinum skammt fyrir utan Breiðdalsvík.

Seinna útkallið var á fimmtudag þegar haft var samband út af vélarvana bát austur af Streiti. Hafdís mætti á staðinn og tók bátinn í tog. Þegar bátarnir voru um það bil hálfnaðir á leið til hafnar hrökk hinn vélarvana bátur í gang.

Á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Geisla, sem sér um Hafdísi, er því haldið fram að sá bátur sé sennilega sá fyrsti í heiminum sem dreginn hefur verið í gang. Hann hélt svo heim til Stöðvarfjarðar fyrir eigin vélarafli.