IIIF kynnir sína fyrstu vörulínu: Afurðir úr hreindýraafurðum

IIIF Mynd1 webIIIF frumsýnir sýna fyrstu vörulínu á menningarnótt í Reykjavík á laugardag. IIIF samanstendur af tveimur austfirskum fatahönnuðum og frönskum vöruhönnuði sem vinna meðal annars úr austfirsku hráefni.

Þríeykið mynda þau Sigrún Halla Unnarsdóttir, Agla Stefánsdóttir og Thibaut Allgayer. Samstarfið má rekja til verkefnisins NA10 þar sem sjö hönnuðir úr hinum ýmsu greinum unnu að því að hanna söluvænlegar vörur úr hráefni og frá framleiðendum af Austurlandi.

Þríeykið hittist á Íslandi eða í Frakklandi og sameinar hugmyndir sínar. Þau hanna vörur, fylgihluti og fatnað sem eiga uppruna sinn að sækja í íslenskt og franskt hráefni, hugmyndafræði, staðhætti og leggja ríka áherslu á staðbundna framleiðslu. Að þessu sinni er um að ræða töskur og hálsmen úr hreindýraafurðum sem framleiddar eru af einyrkjum á Austurlandi.

Það eru þau Freyja Jónsdóttir klæðskeri á Borgarfirði Eystri sem sér um framleiðslu á töskum framleiddum úr hreindýraleðri og Þórhallur Árnason smiður sem sér um framleiðslu á hálsmenum framleiddum úr hreindýrahornum.

IIIF nafnið er vísun í enska orðið if, á íslensku ef. Í hönnunarferlinu koma upp margar spurningar og augnablik þar sem spurt er ‘hvað ef’? IIIF leitast við að spyrja eins margra ‘hvað ef’ spurninga og hægt er, og með því halda sér samstilltum og á tánum. Einnig vísa bókstafirnir I í Iceland og F í France, en IIIF leggur mikla áherslu á uppruna sinn og vörunnar.

Sýnt verður í Alliance Francaise, menningarstofnun Frakklands á Íslandi og öllum boðið að líta við. Frá klukkan 18:00-22:00 á laugardag verða léttar veitingar í boði auk þess sem hljómsveitin Good Moon Deer verður á svæðinu en hana skipa Austfirðingarnir Guðmundur Úlfarsson og Ívar Pétur Kjartansson.

Boðið verður upp á Birki og Björk, en það er nýr íslenskur snaps og líkjör sem þróuð hafa verið af Foss Distillery. Bæði Björk og Birkir byggja á íslensku birki en birkið er fengið úr Hallormsstaðarskógi.

Á milli klukkan 13:00 og 18:00 á sunnudag verða hönnuðirnir sjálfir á svæðinu reiðubúnir að ræða við gesti.

IIIF hlaut styrk frá Menningarráði Austurlands til þess að stíga þessi fyrstu skref.

Fyrirsæta: Brynja Guðmundsdóttir, Eskimo models. Förðun: Erna Hrund Hermannsdóttir. Ljósmynd: Magnús Andersen.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.