Óljóst neyðarlínusímtal: Lögregla og sjúkraflutningamenn fundu ekki fórnarlambið um nóttina

bonusblokk 06052013 0052 webÍ skýrslutöku af lögreglumönnum fyrir Héraðsdómi Austurlands í dag kom fram að brugðist hefði verið við símtali í Neyðarlínuna nóttina sem Karli Jónssyni var ráðinn bani. Áður hafði komið fram við aðalmeðferðina að það var ákærði, Friðrik Brynjar Friðriksson, sem hringdi í 112 um nóttina.

Það var vakthafandi lögreglumaður á Egilsstöðum ásamt lögreglumanni á bakvakt sem fóru á staðinn í kjölfar útkallsins. Einnig fóru sjúkraflutningamenn á staðinn. Fram kom fyrir dómi í dag að útkallið hefði verið óljóst en ástæða til að ætla að um alvarlegan atburð væri að ræða. Samkvæmt tilkynningu snerist málið þó um átök í íbúð ákærða, en ekki íbúð fórnarlambsins.

Lögregla hafði afskipti af ákærða á staðnum en hann neitaði þá að hafa hringt. Eftir að hafa kannað vettvang taldi lögregla ekki ástæðu til frekari aðgerða á staðnum og urðu lögreglumenn ekki varir við ummerki um átök í eða við húsið.

Það var síðan morguninn eftir sem nágranni í næstu íbúð sá fórnarlambið liggja í blóði sínu á svölum íbúðar sinnar og kallaði eftir aðstoð lögreglu. Lögreglumenn sem fyrstir voru á staðinn báru að Karl hafi þá augljóslega verið látinn og einnig kom fram í framburði annarra lögreglumanna að á honum voru sýnileg stungusár. Af vegsummerkjum hafi mátt ráða að lík hans hefði verið dregið innan úr íbúðinni og út á svalirnar.

Vakthafandi lögreglumenn á Egilsstöðum tryggðu vettvang en lögreglan á Eskifirði tók við rannsókn málsins með aðstoð tæknideildar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ákærði í málinu var handtekinn strax eftir að lík fórnarlambsins fannst og var það gert í ljósi útkallsins um nóttina. Ákærði var sofandi í íbúð sinni þegar lögregla handtók hann og færði í fangageymslur.

Skýrslutökur í málinu halda áfram í dag en reiknað er með að aðalmeðferðinni ljúki í kvöld.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.