Vandræðagangur við aðalmeðferð: Símaskýrsla af meinafræðingi ónothæf vegna tungumálaörðugleika

bonusblokk 07052013 0001 webSkýrslutökur af rannsakendum í manndrápsmálinu á Egilsstöðum hafa haldið áfram í Héraðsdómi Austurlands nú seinnipartinn. Ljóst er að aðalmeðferð mun ekki ljúka í dag.

Rannsóknarlögreglumenn hafa í dag farið yfir athuganir sínar á vettvangi og á líki fórnarlambsins. Fram hefur komið að atlagan hafi verið ofsafengin og að hinn látni hafi verið stungin með hnífi 92 sinnum. Hnífurinn sem notaður var til verksins brotnaði við árásina en þrátt fyrir það hélt atlagan áfram. 

Talið er að fyrstu tvær stungurnar hafi verið banvænar og að fórnarlambið hafi misst meðvitund og látist fljótlega eftir að þær voru veittar.

Í ljósi framburðar ákærða fyrr í dag um að hann hafi slegið hinn látna og skilið hann síðan eftir, en komið síðar að honum í blóði sínu og þá dregið lík hans til, fór mikill tími í að spyrja rannsakendur um tímalínu og tímaramma verknaðarins.

Fram kom ósamræmi í framburði íslensku rannsóknarlögreglumannanna annars vegar og hins þýska meinafræðings hins vegar um hvar líklegast væri að áverkarnir hefðu verið veittir. Tveir lögreglumenn báru að upphaflega árasin hefði átt sér stað inni og fórnarlambið líklega sitjandi eða liggjandi. Meginhluti áverkanna hefði hins vegar verið veittur eftir að lík hins látna hefði verið dregið út á svalir íbúðarinnar. Að þeirra mati kemur ekki til greina að meira en 5-10 mínútur hafi liðið frá því að fyrstu áverkar voru veittir þar til að líkið var dregið út á svalirnar.

För voru í blóðslóðinn, mögulega eftir hund. Ákærði hefur borið að hafa verið með hund með sér, en við athugun á þófum hans daginn eftir var ekki unnt að greina blóð.

Þýski meinafræðingurinn bar um að áverkarnir hefðu að líkindum allir verið veittir inni en líkið síðan dregið út á svalir. Einnig vildi hann ekki útiloka að líkið hefði verið fært allt að þrjátíu mínútum eftir að áverkar voru veittir. Virtist það koma saksóknara og rannsóknarlögreglumönnum nokkuð á óvart og fram kom að það væri ekki í samræmi við fyrri skýrslur sama sérfræðings. 

Skýrsla af meinafræðingnum var tekin í gegnum síma og með aðstoð túlks á ensku. Skýrslutakan gekk mjög illa og voru bæði saksóknari og verjandi sammála um að ljóst væri að vitnið skyldi illa spurningarnar sem voru bornar upp á ensku. Dómurinn ákvað í framhaldinu eftir kröfu beggja sakarflytjenda að hætta skýrslutöku og að vitnið yrði fengið til landsins til þess að gefa skýrslu. Einnig yrði fenginn löggiltur dómtúlkur á þýsku til að túlka fyrir vitnið. Því er ljóst að aðalmeðferð mun ekki verða lokið í dag en skýrslutökur héldu áfram af öðrum vitnum.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.