Mannaráðningar hjá Austurbrú: Austfirðingar hafa fjárfest vel í sínu fólki

austurbru sjalfbaerni 0009 webAusturbrú kynnti nýverið átta konur til leiks sem nýjustu starfsmenn stofnunarinnar. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir að leitað sé eftir fjölbreytni í starfsmannahópnum. Töluverð ásókn er í störf frá Austfirðingum sem vilja flytja aftur heim.

„Það er alltaf gaman að vera í stórum og skemmtilegum kvennahóp þótt við leitum að fjölbreytninni,“ segir Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Hann segir mikla ásókn í störf hjá stofnuninni og almennt sé „mikill meirihluti“ umsækjenda konur. Hann segir einnig talsvert af Austfirðingum sem flutt hafi í burtu til að afla sér menntunar og reynslu sækja um.

„Þetta eru Austfirðingar með heimþrá,“ segir hann. „Austfirðingar hafa fjárfest vel í sinni kynslóð með menntun og reynslu og þeir einstaklingar snúa heim með nýja sýn í samfélagið.“

Nokkur gagnrýni hefur verið á ákveðnar ráðningar innan stofnunarinnar þar sem mögulega hafi verið gengið framhjá vel menntuðum og reynslumiklum umsækjendum. Karl Sölvi segir allar ráðningar fara eftir sama ferli.

Hitinn hvíli á yfirmanni viðkomandi, eða matsnefnd sé starfið í samstarfi við aðila utan stofnunarinnar, en hann fari sjálfur yfir allar ráðningar áður en þær séu staðfestar.

Umsækjendum sé raðað upp í matstöflu þar sem geta þeirra sé metin eftir menntun og reynslu og öðrum þáttum sem eigi við í viðkomandi starfi. Þannig sé grisjað úr áður en viðtöl eru tekin.

„Auglýsingar okkar eru opnar og það er með vilja gert. Við viljum sjá hvaða mannauður er á svæðinu. Við leitum eftir breidd og þótt við ráðum ekki viðkomandi í þetta starf þá getum við haft samband síðar ef til falla verkefni sem við teljum hann henta í.“

Karl Sölvi bendir einnig á að hærra menntunarstig sé ekki endilega það sem alltaf sé leitað eftir. Bæði séu að verða til starfsmenn sem séu „ofmenntaðir“ fyrir ákveðin störf auk þess sem þeir eigi rétt á hærri launum miðað við launatöflu Austurbrúar. Það geti flækt málin hjá sjálfseignarstofnuninni.

„Við vinnum innan ákveðins fjárhagsramma sem er frekar þröngur. Við fáum heldur ekki borgað með menntaðri starfsmönnum eins og tíðkast til dæmis í framhaldsskólum.“

Nýju starfsmennirnir:

Anna Alexandersdóttir: Verkefnastjóri á sviði símenntunar á Egilsstöðum
Ása Sigurðardóttir: Verkefnastjóri á Vopnafirði
Björg Björnsdóttir: Verkefnastjóri á nýsköpunar og þróunarsviði
Elfa Hlín Pétursdóttir: Verkefnastjóri á menningarsviði á Seyðisfirði
Íris Dögg Aradóttir: Stök verkefni á markaðs- og þróunarsviði (tímabundin)
Jónína Brynjólfsdóttir: Verkefnastjóri á Upplýsingamiðstöð Austurlands
Lilja Guðný Jóhannsdóttir: Verkefnastjóri í fræðslumálum í Fjarðabyggð
María Hjálmarsdóttir: Verkefnastjóri – Markaðssetning Austurlands.
Steinunn Sigurðardóttir: Móttökuritari á Egilsstöðum

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.