Stjórn BSRB á Egilsstöðum: Á meðan launamunur kynjanna er til staðar verður að vinna gegn honum
Launamunur kynjanna er minnstur í Norðausturkjördæmi samanborið við önnur landssvæði. Á meðan munurinn er til staðar verður að vinna gegn honum. Áherslan í komandi kjarasamningum verður á aukinn kaupmátt og að verja velferðarkerfið en opinberir starfsmenn hafa nokkrar áhyggjur af framtíð sinni þar sem framundan er samdráttur í tekjum ríkissjóðs.Þetta var meðal þess sem rætt var á tveggja daga stjórnarfundi BSRB sem haldinn var á Egilsstöðum lok síðustu viku. Þar voru samankomnir formenn allra aðildarfélaga BSRB, 26 talsins, ásamt formanni, framkvæmdastjóra og starfsfólki samtakanna. Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA) og Starfsmannafélag Fjarðabyggðar eru svæðisfélögin tvö á Austurlandi.
„Það hefur staðið lengi til að fara út á land til að vera sýnilegri og efla tengslin við félögin á staðnum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður samtakanna. „Þetta eflir líka liðsheildina og við notuðum tækifærið til að hitta bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og heimsækja tvo vinnustaði.“
Kynbundinn launamunur minnstur í Norðausturjördæmi
Eitt helsta mál fundarins var ný launakönnun sem sýndi fram á 11,4% kynbundinn launamun á landsvísu. Munurinn er minnstur í Norðausturkjördæmi,5,7% og lækkar úr 11,6% fyrir ári.
„Norðurland og Austurland eru þarna tekin saman en koma betur út en aðrir landshlutar og launamunurinn hefur minnkað frá síðustu könnun. Á meðan kynbundinn launamunur er til staðar þá þarf að taka á því.“
Áherslan á aukningu kaupmáttar
Á fundinum var einnig farið yfir komandi kjarasamningar en þeir eru lausir hjá flestum aðildarfélögunum í lok janúar á næsta ári.
„Þeir munu snúast um að auka kaupmátt með þeim ráðum sem við höfum en aðildarfélögin eru ekki búin að móta sína samningsstefnu. Við gerðum könnun meðal félagsmanna okkar sem sýndi fram á að þetta mál væri þeim efst í huga en þar á eftir lækkun lægstu launa og fleiri atriði.
Menn hafa einnig miklar áhyggjur af auknu álagi út af niðurskurði. Við þekkjum það sem hefur verið að gerast hjá lögreglunni og allir landsmenn hafa fylgst með þeim málum.“
Þarf að verja velferðarkerfið ef skorið verður niður
Inni í kjarasamningsviðræðurnar blandast einnig samræður við stjórnvöld um velferðarkerfið sem Helga Jónsdóttir, segir bandalagið hafa sérstakar áhyggjur af ljósi þess að fyrirsjáanlegt sé að tekjur ríkissjóðs dragist saman á næstunni.
„Við höfum áhyggjur af að það komi niður á velferðarþjónustunni að búið sé að ákveða að skerða tekjur ríkissjóðs og einhvers staðar verður að taka þá peninga,“ segir hún.
„Ríkið er stór launagreiðandi opinberra starfsmanna ef skera á niður þar getur það bitnað á okkar félagsmönnum. Launaskerðing hefur orðið mest hjá opinberum starfsmönnum af öllum starfsstéttum frá árinu 2006,“ bætir Elín Björg við.
„Við höfum líka trú á velferðarþjónustunni sem tækis til að jafna kjörin og hugsjón BSRB um að verja velferðarþjónustuna í aðdraganda nýrra fjárlaga fer saman við komandi kjarasamninga.“