Óttast um fé á Jökuldal: Við vonum það besta
Óttast er að fé hafi farist á Jökuldal í óveðrinu sem gengið hefur yfir Austurland síðustu tvo daga. Veðrið var verra og snjólínan náði lengra niður en menn gerðu ráð fyrir. Skaðinn er samt ekki orðinn ljós þar sem ekki hefur verið hægt að smala þau svæði sem næst eru bæjunum til að kanna stöðuna.„Það er verið að kanna ástandið á fé heim við tún. Við vitum ekki hvernig það er því við höfum ekki getað skoðað hvað er komið heim að girðingu. Til þess hefur hvorki verið veður né mannskapur,“ segir Benedikt Arnórsson, bóndi á Hofteigi í samtali við Austurfrétt.
„Menn óttast að það hafi farist fé þar sem snjólínan er mikið lægri en menn reiknuðu með. Það er snjór niður á láglendi og ástandið er hreint ekki árennilegt. Það var búið að smala niður í brúnir en það er bullandi snjór í brúnum. Það er ekki búið að smala frá Skjöldólfsstöðum og út að Laxá nema þá út af áhyggjum af veðri.“
Þegar Austurfrétt náði tali af Benedikt var hann norður í Vopnafirði að reka fé á bíl til slátrunar. Til að slátrun héldist gangandi á Vopnafirði var keyrt aðfaranótt sunnudags þar til gekk í veðrið og farið aftur af stað þegar lægði um klukkan tíu í gærkvöldi.
Þegar veðurspá vikunnar birtist í síðustu viku drifu menn sig af stað til að smala. „Það var smalað á fimmtudag og föstudag og farið yfir óhemju svæði á laugardag. Það var réttað í dag og í gær. Það hefur vantað fé í slátrun á Vopnafirði og menn reynt að keyra stystu leiðirnar til að fylla á dagana í lógun.“
Næst á dagskrá er að kanna ástand þess fjár sem er komið heim að girðingu áður en haldið verður upp á heiðar til að leita að fé. Ljóst er þó að þar hefur ástandið versnað verulega.
„Við vonum það besta en við höfum gert björgunarsveitunum viðvart um að við gætum þurft aðstoð. Við ætlum samt ekkert að láta menn rjúka af stað ef ástandið er betra en við höldum.“
Það skýrst á næstu dögum. Það verður samt mikið verk að ná þessu fé saman. Það er allt orðið ófært, menn komast ekkert lengur á hjólum. Annað hvort verða menn að fara gangandi eða á vélsleðum. Færið fyrir þá er ekki gott en það verður barist áfram.“
Nágrannar þeirra í Fljótsdal voru búnir að smala stóran hluta sinna afréttar, eða út fyrir Fjallaskarð og Laugakofa. Þar hefur féð komið niður í byggð síðustu daga undan veðrinu en hægt gekk í veðrið þannig féð hafði tíma til að bregðast við.