„Halló. Ég heiti Friðrik Brynjar. Ég held ég hafi drepið mann.“
„Halló. Ég heiti Friðrik Brynjar. Ég held ég hafi drepið mann,“ voru fyrstu orð Friðriks Brynjars Friðrikssonar í símtali til Neyðarlínunnar aðfaranótt 7. maí. Friðrik Brynjar er ákærður fyrir að hafa ráðið Karli Jónssyni bana.Upptaka af símtalinu var spiluð við aðalmeðferð dómsmálsins gegn Friðrik Brynjari í héraðsdómi Austurlands í dag.
Þar gefur Friðrik Brynjar upp nafn sitt, kennitölu, heimilisfang og bætir því við að hann sé að fara inn í sína eigin íbúð. Setninguna „ég held ég hafi drepið mann“ endurtekur hann þrisvar.
„Hann réðist á mig. Ég kýldi hann eitt hnefahögg og hann datt niður og ég dró hann út á svalir. Þessi maður er dáinn, þessi maður er dáinn. Þetta var bara að gerast. Hann réðist á mig og ég kýldi hann,“ segir Friðrik Brynjar þegar starfsmaður Neyðarlínunnar spyr hvað hann hafi gert við manninn.
Á upptökunni mátti greina að Friðrik Brynjar var töluvert ölvaður og í geðshræringu. „Ég er í sjokki,“ segir hann og harðneitar að fara inn í íbúðina til að gá að Karli þótt hann sé beðinn um það.
„Hann reyndi að kyssa mig. Nei, ég vil ekki fara inn til hans.“
Við fyrri hluta aðalmeðferðarinnar, sem fram fór í dómssal á Egilsstöðum í ágúst, báru lögreglumenn að upplýsingar þær sem þeir hefðu fengið frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hefðu verið óljósar. Talað hefði verið um hugsanlegt manndráp og að fórnarlambið fallið fram af svölum.
Lögreglan kom á svæðið og ræddi við Friðrik en varð ekki vör við neitt sérstaklega óeðlilegt. Nágranni Karls fann hann látinn á svölum íbúðar hans á Blómvangi 2 morguninn eftir.
Við framhald aðalmeðferðarinnar í dómssal í Hafnarfirði í dag kom fram að Friðrik Brynjar hefði verið með áfengiseitrun nóttina sem verknaðurinn var framinn. Hann viðurkennir að hafa verið „mjög drukkinn“ þannig að minni hans frá nóttinni sé „ekki 100%“
Friðrik Brynjar gaf stutta skýrslu fyrir dóminum eftir að upptakan var spiluð. Hann staðfesti að hann kannaðist við eigin rödd af upptökunni.
Fyrir dómi hefur hann sagt að hann hafi komið á Karli í blóði sínu á svölunum og að hafa slegið hann en neitar að hafa dregið hann úr íbúðinni og út á svalir eða ráðið honum bana.
„Ég minnist þess að hafa lyft honum eitthvað upp en svo sleppi ég honum og hleyp út. Mér finnst það mjög fjarstæðukennt. Mér finnst frekar að ég hafi hlaupið beint út,“ sagði Friðrik Brynjar í dag.
Hann sagðist ekki muna eftir sér við hníf, að losa sig við hníf né að þvo sér um hendurnar.
„Að sjálfsögðu er ég búinn að hugsa mikið um þetta og ég hef lesið um þetta. Þetta er það sem er búið að vera mér efst í hugsa síðan í maí.“