Sjúkraþjálfunarstofan Heilsuleiðir opnuð: Fólk spyr eftir þessari þjónustu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. sep 2013 21:13 • Uppfært 27. sep 2013 21:16
Sjúkraþjálfunarstofan Heilsuleiðir var opnuð á Egilsstöðum í dag. Stofnandinn segist finna fyrir töluverðri eftirspurn og hefur trú á að starfsmönnunum fjölgi innan tíðar.
„Biðlistarnir í sjúkraþjálfun hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands eru langir. Þess vegna ákvað ég að opna þessa stofu,“ segir Lonneke van Gastel, sjúkraþjálfari og eigandi Heilsuleiða.
„Menn eru byrjaðir að bóka tíma hjá mér og sá fyrsti kom í meðferð hjá mér í dag," sagði hún en gestum var boðið að skoða aðstöðuna í tilefni dagsins.
Stofan er staðsett í Níunni í miðbæ Egilsstaða. Í rými á efstu hæð hússins er búið að innrétta sjúkraþjálfarastofu með litlum tækjasal, fjórum meðferðarherbergjum og svæði til sjúkraþjálfunar fyrir börn sem er sérgrein Lonneke.
„Þessi aðstaða er ekki bara hugsuð fyrir einn starfsmann. Ég vonast til að fá fleiri með mér með fjölbreyttari bakgrunn.“
Lonneke er fædd í Hollandi en hefur unnið í Reykjanesbæ, Vopnafirði og síðustu sex ár hjá HSA með aðsetur á Egilsstöðum. „Það er gott að breyta til.“