Viðgerðir hafnar á mygluhúsunum: Íbúar þurfa ekki að bera neinn kostnað af viðgerðum

mygluhus vidgerd 0002 webViðgerðir eru hafnar á íbúðarhúsum á Egilsstöðum og Reyðarfirði sem byggð voru af ÍAV fyrir nokkrum árum og skemmd eru af myglusveppi. Verkið hefur dregist þar sem treglega hefur gengið að fá iðnaðarmenn en vonast er til þess að því verði lokið áður en harðasti veturinn skellur á.

Um mánuður er síðan viðgerðirnar hófust en alls þarf að laga um 50 hús. Viðgerðirnar fara fram samtímis á báðum stöðum.

Í upphafi verks er farið yfir aðgerðaplan með íbúum og gerð skoðunarskýrsla með þeim. Þá eru settir upp blásarar til að skapa þrýsting til að varna því að ryk og mengun berist inn í íbúðir en reiknað er með að hægt verði að búa í húsunum á meðan viðgerð stendur.

„Nokkur hávaðamengun verður meðan á aðgerðum stendur. Við reiknum ekki með að það verði rykmengun eða mengun af völdum myglu inn í húsin,“ segir Ríkharður Kristjánsson, sviðsstjóri hjá ÍAV.

Skemmdirnar eru flestar í krossviði í þökum húsanna sem felur það í sér að fletta þarf ofan af húsunum. Krossviðurinn er tekinn út og lagður upp í loft við húsin til að hægt sé að mynda hann til að meta skemmdirnar. Honum er síðan fargað.

Allri einangrun er lyft og ryksugað undan henni. Mengaðri steinull er fargað. Þá er gert við rakasperrur og sperrur heflaðar ef í þeim finnst mygla. Gengið er frá þakinu þannig að betur lofti um það eftir endurbæturnar og íbúðin rannsökuð á ný áður en verkið telst fullklárað.

„Við reiknum með að það verði í allt 14-15 manns að vinna þetta í þremur hópum og vonumst til að komast til enda áður en vetur brestur á að fullu,“ segir Ríkharður.

Upphaflega var áætlað að verkið yrði unnið í sumar og lokið fyrir veturinn. Það dróst hins vegar meðal annars vegna þess að illa gekk að fá iðnaðarmenn til verksins af Austurlandi.

„Verkið fór seinna af stað en ætlað var, bæði vegna skorts á smiðum á Austurlandi og svo hins að við urðum að vera búnir að ná samningum við alla aðila áður en hönnuðir voru reiðubúnir til að hefjast handa við hönnun. Það vildu ekki allir semja strax. Nú eru hins vegar samningar komnir á við alla eigendur.

Það gekk mjög treglega að manna verkið með heimamönnum og að lokum urðum við að gefa það upp á bátinn og taka smiði úr öðrum verkum ÍAV í öðrum landshlutum.“

Viðgerðirnar verða íbúum að kostnaðarlausu en samningar um það náðist milli ÍAV, Mannvits, Arkís og Byko í samráði við tryggingarfélög.

„Við erum mjög ánægð með að það náðist samkomulag milli allra aðila málsins að fara í þessar endurbætur, íbúum að kostnaðarlausu.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.