Skip to main content

Nýjum lækni fagnað á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2013 20:59Uppfært 05. okt 2013 19:53

djupivogur 280113 0018 webSveitarstjórn Djúpavogshrepps fagnar því að tekist hefur að manna stöðu læknis í Djúpavogslæknishéraði. Leitað hefur verið eftir hjúkrunarfólki á svæðið síðustu misseri.


Auglýst var eftir lækni í héraðið í lok síðasta árs en lítil viðbrögð voru við þeirri auglýsingu. Í sumar var staðan auglýst aftur og er Þórarinn Baldursson tekinn við starfinu. Aðsetur hans verður á Djúpavogi.

Í bókun frá síðasta fundi sveitarstjórnar Djúpavogshrepps er lýst „sérstakri ánægju“ og það sagt „sérstakt fagnaðarerindi að tekist hafi að manna stöðu læknis í Djúpavogslæknishéraði.“

Fjórir læknar skiptu þjónustu við Djúpavog og Breiðdalshrepp með sér síðasta vetur. „Það er erfitt að ná lækni inn í þessi einmenningshéröð,“ sagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, á borgarafundi í vor.

Auk þess að berjast fyrir að fá lækni á svæði hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins lagt á það áherslu að fá hjúkrunarfræðing á staðinn.

„Ráðuneytið hefur viðurkennt að full þörf er á hjúkrunarfræðingi á svæðið, bæði fyrir gamla fólkið og barnafólk. Þótt hann sé ekki í 100% stöðu skiptir miklu máli að hafa hjúkrunarfræðing hér með fasta búsetu,“ sagði Gauti við sama tilefni.