Skip to main content

Barkabólgan á Egilsstaðabýlinu upprætt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. okt 2013 15:16Uppfært 07. okt 2013 16:38

egilsstadir fjosMatvælastofnun telur að tekist hafi að uppræta smitandi barkabólgu sem greindist í kúm á kúabúinu á Egilsstöðum í fyrrahaust. Ekki hefur enn tekist að rekja hvaðan smitið barst.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í dag. Eftir að jákvæð svörun greindist við prófi voru tekin sýni úr öllum gripunum á búinu. Við þær sýnatökur reyndust 22 gripir jákvæðir og var þeim öllum slátrað. Sömu sögu er að segja af sýktum grip sem fluttur var frá Egilsstöðum á annað bú á Héraði.

Ummerki um veiruna fundust ekki annars staðar á landinu þrátt fyrir mikla leit. Á Egilsstöðum hafa verið tekin sýni tvisvar með sjö mánaða millibili og enginn gripur greinst með smit. Matvælastofnun telur því „allar líkur á að smitið hafi verið upprætt“ og því öllum kvöðum verið létt af búinu.

Ekki hefur enn verið rakið hvaðan smitið barst en smitandi barkabólga er algeng víða í Evrópu. Stofnunin leggur áherslu á að áfram takist að halda Íslandi fríu frá sjúkdóminum.