Andapollurinn á Reyðarfirði baðaður í bleiku: Ljósin hennar Steinu vekja mikla athygli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. okt 2013 10:41 • Uppfært 10. okt 2013 10:42
Bleik lýsing umhverfis andapollinn á Reyðarfirði hefur vakið umtalsverða athygli vegfarenda en lýsingin er hugarfóstur hvunndagshetju Krabbameinsfélags Austfjarða í ár. Austfirðingar eru hvattir til að klæðast bleiku á morgun.
„Við köllum þetta ljósin hennar Steinu,“ útskýrir Iðunn Geirsdóttir, starfsmaður þjónustumiðstöðvar krabbameinsfélagaga Austfjarða og Austurlands þegar hún er spurð út í lýsinguna í kringum andapollinn.
Lýsingin er hugarfóstur Steinunnar Sigurðardóttur sem undanfarin tvö ár hefur starfað á þjónustuskrifstofunni en lét af störfum þar í september. Þann 1. október var hún útnefnd hvunndagshetja félagsins í ár.
„Við höfum verið að vinna að því síðastliðin ár að auka bleika lýsingu á Austfjörðum í októbermánuði. Steinunn fékk þessa hugmynd í fyrra og reyndi að hrinda í framkvæmd en það gekk ekki eftir.“
Í ár varð hugmyndin að veruleika. „Jóhann Sæberg gekk í málið með hjálp góðra aðila og er óhætt að segja að lýsingin veki mikla athygli og ánægju.“
Bleiki dagurinn verður haldinn á morgun en þá er fólk hvatt til að klæðast bleiku og hafa bleika litinn í fyrirrúmi til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini hjá konum.
„Vinnustaðir hér eystra hafa komið sterkir í hópinn og verið með bleik þema á þessum degi. Við hvetjum fólk til að senda skemmtilegar myndir frá deginum á Facebook-síðuna okkar. Við vonumst eftir að sem flestir taki þátt hér fyrir austan og sýni sitt bleikasta.“