Hótel Tanga veitt áminning fyrir brot á reglum um matvæli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. okt 2013 13:42 • Uppfært 11. okt 2013 10:33
Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) veitti í sumar rekstraraðila Hótel Tanga áminningu fyrir brot á matvælalöggjöf, ákvæðum starfsleyfis og ítrekuðum fyrirmælum HAUST. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast vera búnir að bæta úr þeim atriðum sem athugasemdir voru gerðar við.
Við reglubundið eftirlit í júlí voru gerðar athugasemdir við að hitastig í frystigeymslu væri of hátt, ekkert salerni væri til staðar ætlað starfsfólki í eldhúsi og að innra eftirlit væri óvirkt.
Aftur var farin eftirlitsferð í byrjun ágúst og hafði þá verið bætt úr innra eftirlitinu að hluta. Í kjölfarið var veittur þriggja vikna frestur til að verða við tilmælum HAUST eða andmæla athugasemdunum.
Við því var ekki orðið af hálfu Hótel Tanga og var Háahrauni ehf., rekstraraðila hótelsins, því veitt áminning vegna brota á matvælalögum, reglugerðum sem byggja á þeim, gegn brotum á ákvæðum starfsleyfi og ítrekuðum fyrirmælum HAUST.
Hjá HAUST fengust þær upplýsingar að forsvarsmenn Hótel Tanga hefðu lýst því yfir að bætt hefði verið úr þeim atriðum sem athugasemdir voru gerðar við.
HAUST á þó eftir að staðfesta það með nýrri eftirlitsferð. Þyki úrræðin ekki fullnægjandi kemur til greina að beita frekari þvingunarúrræðum svo sem dagsektum eða jafnvel lokun.
Mynd: Örn Björnsson