Skip to main content

Ákærður fyrir að stofna lífi vegfarenda og lögreglumanna í hættu með ofsaakstri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. okt 2013 14:19Uppfært 11. okt 2013 14:21

logreglanRíkissaksóknari hefur ákært ríflega tvítugan karlmann fyrir að hafa stefnt lífi og heilsu vegfarenda og lögreglumanna í „augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.“ Maðurinn ók undir áhrifum áfengis og reyndi að stinga lögregluna af á leiðinni upp Fagradal.


Í ákærunni segir að maðurinn hafi „ítrekað“ ekið yfir á rangan vegarhelming og „í veg fyrri lögreglu“ sem reyndi að stöðva för hans. Á leiðinni mætti hann þremur bílum.

Atvikið átti sér stað í fyrrahaust. Aksturinn hófst í miðbæ Reyðarfjarðar og lá um götur bæjarins áleiðis upp í Egilsstaði en lögregla stöðvaði för hans við Neðstubrú yfir Fagradalsá.

Hann mældist á 136 km/klst hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst og hafði þá ítrekað hunsað stöðvunarmerki lögreglu. Áfengismagn í blóði hans mældist 2,46 prómill auk þess sem ummerki fundust um að hann hefði neitt kannabis fyrir aksturinn.

Hann er því ákærður fyrir að hafa „raskað umferðaröryggi á alfaraleið“ og að hafa „ófyrirleitinn hátt“ stofnað „lífi og heilsu vegfarenda og lögreglumanna í augljósan háska.“

Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar.