Bæjarstjórnarbekkur á Egilsstöðum: „Haldið þið að einhver kjósi ykkur?“

baejarstjornarbekkur 2Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs stóð fyrir svokölluðum bæjarstjórnarbekk þriðjudaginn 15. október. Fulltrúar allra framboða í bæjarstjórn komu sér þá fyrir í kaffihorni Nettó og ræddu málin við gesti og gangandi.
Bæjarstjórnarbekkurinn hefur verið haldinn nokkrum sinnum sem viðbót við almenna viðtalstíma bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði. Hafa þá fulltrúar úr bæjarráði ásamt bæjarstjóra verið sendir út af örkinni til að sitja fyrir svörum og taka við erindum frá bæjarbúum.

Að þessu sinni var bekkurinn með aðeins öðru sniði en vanalega, en hann var settur upp sérstaklega þennan dag í tengslum við samevrópska lýðræðisviku sem er haldin með áherslu á lýðræði í nærsamfélögum. Oddvitar allra framboða í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs voru á staðnum og markmiðið að ræða þátttöku íbúa í lýðræðinu og komandi sveitarstjórnarkosningar.

Að sögn Sigrúnar Blöndal, oddvita Héraðslistans voru erindi manna margvísleg. „Þeir sem spjölluðu við okkur voru m.a. að velta fyrir sér skuldastöðu sveitarfélagsins og hvernig mætti rétta við fjárhag þess. Einn viðmælandi ræddi um reiðhallarmálið og einnig var rætt um skólamötuneyti og komandi sveitarstjórnarkosningar. Við vorum t.d. spurð hvort við héldum að einhver myndi kjósa okkur?!“

Sigrún sagði að þetta hefði verið á óformlegum nótum og enginn virtist hafa gert sér sérstaka ferð með erindi heldur hafi þau komið fram í spjalli manna á milli.

„Í rauninni voru eiginlega engir sem beinlínis komu og settust til að ræða ákveðin mál. Þetta var meira þannig að við gáfum okkur að fólki og kölluðum það til okkar. Annars var þetta bara svona létt spjall um daginn og veginn.“

Mynd: f.v. Sigrún Blöndal oddviti Héraðslista, Jón Ingi Sigurbjörnsson íbúi, Karl S. Lauritzson oddviti Sjálfstæðisflokks og Gunnar Jónsson oddviti Á-lista. Á myndina vantar Stefán Boga Sveinsson oddvita Framsóknarflokks.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.