Austfirskir lögreglumenn hafa áhyggjur af samskiptum kynjanna innan lögreglunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. okt 2013 14:03 • Uppfært 21. okt 2013 14:03
Félagar í Lögreglufélagi Austurlands harma niðurstöður skýrslu um vinnumenningu og kynjatengsl innan lögreglunnar. Rannsóknin sýndi fram á erfiða stöðu kvenna innan lögreglunnar.
Þetta kemur fram í ályktun frá aðalfundi félagsins sem haldinn var í síðustu viku. Þar er skorað á stjórnendur lögregluembætta að taka „af festu á kynferðislegu áreiti og einelti.“
Jafnframt er skorað á lögreglumenn „af báðum kynjum að umgangast hvert annað af þeirri virðingu sem við öll eigum skilið.“
Í nýlegri rannsókn kom fram að 31% lögreglukvenna hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Viðhorf til kvenna innan lögreglunnar virðist neikvætt og þær eiga litla möguleika á að komast áfram í starfi. Þetta leiðir síðan til verulegs brotthvarfs kvenna úr lögreglunni.